ÓL: Dugir okkur ekki gegn Rússum

Norska landsliðið sem vann ungverska landsliðið í átta lið úrslitum ÓL í morgun. Mynd/EPA

„Leikur okkar í dag dugir ekki á móti Rússum en víst er að við getum leikið mikið betur en þetta,“ sagði Þórir Hergeirsson, landsliðsþjálfari Noregs í samtali við TV Norge og er haft eftir honum á heimasíðu norska handknattleikssambandsins. Noregur vann Ungverjaland, 26:22, í átta liða úrslitum handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Tókýó.

Norska liðið var í basli með Ungverja og það var í raun Katrine Lunde markvörður sem reið baggamuninn með stórleik síðasta stundarfjórðunginn.


„Ungverska liðinu tókst að draga mjög niður í hraða leiksins auk þess sem við vorum á tíðum okkar versti óvinur í leiknum. Væntingar leikmanna eru miklar. Þær vilja berjast um gullverðlaun,“ sagði Þórir ennfremur og undirstrikaði að leikir í átta liða úrslitum væri oft þeir erfiðustu á stórmótum.

„Nú erum við í undanúrslitum og mætum þar rússneska landsliðinu sem hefur sótt mjög í sig veðrið eftir því sem á keppnina hefur liðið,“ sagði Þórir sem er e.t.v. minnugur tapsins fyrir Rússum í undanúrslitum Ólympíuleikanna í Ríó fyrir fimm árum eftir framlengingu.


Leiktímar í undanúrslitum hafa ekki verið staðfestir en margt bendir til þess að Noregur og Rússland mætist í fyrri viðureign undanúrslita á föstudag sem á að hefjast klukkan 17 að staðartíma í Tókýó, þ.e. klukkan átta árdegis á Íslandi.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -