- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Toft, Gomes, Načinović, Martinović, Peric

Sandra Toft, landsliðsmarkvörður Dana fagnar með samherjum sínum í landsliðinu. Mynd/EPA
- Auglýsing -
  • Danski landsliðsmarkvörðurinn Sandra Toft gengur til liðs við stórlið Györ á næsta sumri samkvæmt heimildum TV2 í Danmörku. Toft hefur undanfarin tvö ár leikið með franska liðinu Brest.  Györ hefur þegar þrjá markverði á sínum snærum, Laura GlauserAmandine Leynaud og Silje Solberg. Hver þeirra verður að taka pokann sinn gangi Toft til liðs við liðið er óvíst enda vilja forráðamenn Györ ekki tjá sig um þessar fregnir. 
  • Ósennilegt er að Andre Gomes leiki með landsliði Portúgal á EM í næsta mánuði eftir því sem hann greinir frá í samtali við fjölmiðla í heimalandinu. Portúgalska landsliðið verður fyrsti andstæðingur íslenska landsliðsins á EM 14. janúar. Fjarvera Gomes er mikil blóðtaka fyrir portúgalska landsliðið eins og þeirra Luis Frade og Pedro Portela sem handbolti.is hefur áður greint frá að verði ekki með. Frade er með slitið krossband. Til viðbótar mun Diogo Silva einnig verða fjarverandi vegna meiðsla. 
  • Veron Načinović, samherji Ólafs Andrésar Guðmundssonar hjá Montpellier verður ekki með króatíska landsliðinu á EM sem hefst í næsta mánuði. Načinović er ekki gjaldgengur þar sem hann hefur aðeins fengið eina bólsetningu við covid19. Načinović hefur reyndar veikst af covid19 en það er ekki talið nóg af hálfu Handknattleikssambands Evrópu sem setur það skilyrði fyrir þátttöku leikmanna á EM að þeir hafi fengið tvær bólusetningar þótt þeir hafi veikst af veirunni. Načinović hefur ekki viljað fara í aðra bólusetningu þar sem skammt er síðan hann veiktist. 
  • Ivan Martinović er annar leikmaður króatíska landsliðsins sem hefur aðeins fengið eina sprautu. Hann fær hinsvegar aðra nú á milli jóla og nýárs og ætti þar með að verða gjaldgengur með landsliðinu á EM.
  • Hinsvegar er alveg óvíst hvort markvörðurinn Ivan Peric verði gjaldgengur með Stuttgart eftir áramótin eins og vonir stóðu til. Hann var á mála hjá Meshkov Brest í Hvíta-Rússlandi og fékk þar tvo skammta af Sputnik efninu sem Rússar framleiða. Það er hinsvegar ekki viðurkennt í Þýskalandi og því bendir allt til þess að hann verði að fá tvær sprautur með efni sem viðurkennt er í Þýskalandi áður hann verður að fullu gjaldgengur með Stuttgart á nýju ári. Peric verður heimilt að leika með króatíska landsliðinu á EM.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -