22 ára gömul mynd er breytt

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
 • Fimmtánda Evrópumót karla í handknattleik hófst í gær og í dag stígur íslenska landsliðið á svið. Í tólfta sinn í röð er íslenska landsliðið á meðal þátttökuliða mótsins. Liðin voru 12 í lokakeppni EM þegar Ísland tók fyrst þátt árið 2000. Nú er 24 bestu lið Evrópu með í keppninni.
 • Upphafsleikur Íslands á EM í kvöld verður 64. leikur landsliðsins í lokakeppni EM síðan flautað var til þess fyrsta klukkan 17 að staðartíma 21. janúar 2000 í Dvorana Mladosti íþróttahöllinni í Rijeka í Króatíu. Leikið var við Svía og eins og oft á þessum árum þá ólu menn þá von í brjósti að leggja Svíagrýluna. Af því varð ekki og „grýlan“ vann með átta marka mun, 31:23.
 • Fyrir mig, sem hef séð alla leiki íslenska landsliðsins í lokakeppni EM frá upphafi, þá er ekki laust við að ég sakni eins þegar flautað verður til leiks í MVM Dome í Búdapest í kvöld.
 • Meðan ofangreindur leikur við Svía fór fram 21. janúar 2000 í Rijeka sat tvítugur strákur upp í áhorfendastúku sem ónotaður varamaður, var utan hóps, ásamt línumanninum Magnúsi Má Þórðarsyni og markverðinum Sebastian Alexanderssyni. Hann sat einnig í stúkunni í næsta leik á eftir þegar íslenska landsliðið mætti Portúgal. Enn var Sebastian við hlið hans auk hornamannsins Njarðar Árnasonar.
 • Í þriðja leik íslenska landsliðsins á EM 2000, 23. janúar gegn Rússum fékk piltur að vera með. Hann ávann sér sífellt meira traust hjá landsliðsþjálfaranum Þorbirni Jenssyni og svo kom að í fimmta og næst síðasta leik íslenska liðsins á mótinu skoraði piltur sín fyrstu mörk í lokakeppni EM, og það ekki bara eitt heldur fimm.
 • Pilturinn heitir Guðjón Valur Sigurðsson. Í kvöld leikur íslenska landsliðið sinn fyrsta leik í lokakeppni Evrópumóts frá 22. janúar 2000 án Guðjóns Vals Sigurðssonar. Umræddur leikur 22. janúar, annar leikur Íslands á mótinu 2000, var gegn Portúgal. Því miður tapaðist leikurinn, 28:25. Í kvöld er markmiðið að snúa hlutverkunum við.
 • Guðjón Valur er markahæsti leikmaður Evrópumótanna frá upphafi með 294 mörk og sá sem hefur tekið þátt í flestum lokamótum EM, alls 11. Leikir hans í keppninni voru 61 í röð, hann missti ekki úr leik í 20 ár.
 • Það er mögnuð staðreynd og segir meira en mörg orð um feril þessa einstaka íþróttmanns að í kvöld stillir íslenska landsliðið í fyrsta sinn upp í lokakeppni í 22 ár án Guðjóns Vals. Merkilegt nokk þá var síðasti leikur hans í lokakeppni EM 22. janúar 2020.
 • Það er ekki laust við að gamli íhaldssami hundurinn í blaðamannastúkunni í MVM Dome í kvöld muni sakna einhvers um leið og hann horfir vonglaður til framtíðar með nýrri kynslóð með einlægri von um sigur. Eitt er þó að vona.
 • Í tilefni þessa ætla ég að leyfa öðrum að vaða á súðum.


  Ívar Benediktsson, ivar@handbolti.is.
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -