- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verð í stærra hlutverki í sókninni

Guðmundur Hólmar Helgason, grænklæddur, í leik með West Wien í Austurríki. Mynd/West Wien.
- Auglýsing -

Guðmundur Hólmar Helgason flutti heim í sumar með fjölskyldu sinni eftir fjögur ár í atvinnumennsku, tvö ár í Frakklandi og önnur tvö ár í Austurríki. Hann ákvað að ganga til lið við Selfoss og byrjaði sannarlega af krafti með liðinu gegn Stjörnunni á föstudagskvöldið. Hann skoraði 10 mörk og fór einnig mikinn  í vörninni.

Reyndar hefur Guðmundur verið þekktari fyrir varnarleik sinn en sóknarleik á síðustu árum. Á því gæti orðið breyting á nýbyrjuðu keppnistímabili

„Ég hef fundið mig mjög vel síðustu vikur og fengið góðan tíma til þess að leika meira í sókninni en stundum áður. Ég reiknaði svo sem alveg með því þegar ég kom að taka að mér stærra hlutverk í sóknarleiknum en áður vegna þess að Selfoss-liðið missti risastóran póst úr sóknarleiknum í sumar þegar Haukur Þrastarson flutti til Póllands. Ég ætla ekki að feta í hans fótspor enda allt annarskonar leikmaður en samt. Ég reyni bara að gera mitt besta áfram í næstu leikjum. Síðan verður að koma í ljós hversu miklu það skilar,“ segir Guðmundur í samtali við handbolta.is.

Tókum stigunum feginshendi

 „Í fullri hreinskilni þá hefði jafntefli verið sanngjörn úrslit í leiknum við Stjörnuna en við tökum báðum stigum fegins hendi,“ sagði Guðmundur.  „Varnarleikurinn var ágætur og markvarslan góð en svo virtist sem þreyta væri farin að segja til sín undir lokin enda keyrðu bæði lið svolítið á sama liðinu stóran hluta leiksins.  Við náðum að halda einbeitingu og síðan var Hergeir [Grímsson] útsjónarsamur í lokin þegar hann stal boltanum af Stjörnumönnum á síðustu sekúndum leiksins. Það var sætt,“ sagði Guðmundur ennfremur og undirstrikaði að margt jákvætt hafi verið hægt að taka úr leiknum þótt einu og öðru hafi verið ábótavant.

Mun reyna á breiddina

„Framundan er langt og strangt keppnistímabil. Ef ég tek mið af þeim leikjum sem ég hef séð úr fyrstu umferðinni og þessu sem ég sá úr síðustu æfingaleikjunum fyrir mót þá finnst mér ekki mikið bera á milli margra liða í Olísdeildinni.  Þar af leiðandi verður dýrmætt fyrir okkur þegar menn fara að koma inn af meiðslalistanum. Ekki veitir af því tímabilið er langt og mun reyna verulega á breiddina í leikmannahópunum.“

Frá Vínarborg austur á Selfoss

Sem fyrr segir flutti Guðmundur og fjölskylda heim í sumar eftir tveggja ára veru í Vínarborg þar sem Guðmundur lék með liði West Wien. „Við fluttum austur á Selfoss í júlí og líkar vel. Undirbúningstímabilið var gott hjá mér þótt því miður hafi liðið hafi verið óheppið með ýmis skakkaföll hjá leikmönnum. Enn höfum við ekki getað æft saman, allur hópurinn. Andinn er hinsvegar fínn og stígandinn í þjálfuninni var góður að mínu mati.  Tímabilið var vel sett upp hjá þjálfurum og talsvert um æfingaleiki ofan í það.

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari, er eins og ég nýr hér hjá liðinu. Hann hefur verið að koma með eitt og annað nýtt inn í æfingarnar og undirbúninginn. Halldór og Örn Þrastarson aðstoðarþjálfari hafa náð vel saman. Efniviðurinn er nægur hér á Selfossi, sýnist mér.“

Tekur upp þráðinn í lögfræði

Samhliða handboltanum og uppeldi tveggja drengja ásamt konu sinni þá stundar Guðmundur meistaranám í lögfræði við HÍ en hann lauk BA gráðu í greininni áður en hann fór út til Frakklands fyrir fjórum árum. „Nú er ég nýbyrjaður á fjórða árinu. Námið sat á hakanum meðan við vorum úti. Þá leyfðum við okkur að nýta tímann saman fjölskyldan, njóta þess að vera til enda með tvo drengi, átta og fimm ára. Fjölskyldan hafði forgang með boltanum úti en nú er komið að því að taka upp þráðinn og halda áfram með lögfræðina,“ sagði Guðmundur Hólmar Helgason, nýr liðsmaður handknattleiksliðs Selfoss.

Keppni í Olísdeild karla hefst í kvöld.

Leikir annarar umferðar eru þessir:

Fimmtudagur 17. september: (í kvöld)

Höllin Ak.: Þór Ak – FH, kl. 19.00

Framhús: Fram – Afturelding, kl 19.30

Hertzhöllin: Grótta – Stjarnan, kl. 19.30

Föstudagur 18. september:

Vodafonehöllin:  Valur – ÍR, kl. 18.00

Hleðsluhöllin: Selfoss – KA, kl. 19.30

Laugardagur 19. september:

Schenkerhöllin: Haukar – ÍBV kl. 17.30

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -