- Auglýsing -
- Auglýsing -

Á morgun, á morgun…

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -
  • Enn einu sinni hefur vaknað upp umræða um þörf á byggingu nýrrar þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir auk þjóðarleikvangs fyrir knattspyrnu og frjálsíþróttir. Aðstaða til landsleikja í handknattleik, knattspyrnu, blaki, knattspyrnu og frjálsíþrótta hefur árum saman verið óviðunandi. Mannvirkin eru úrelt. Stöku sinnum hefur verið reynt að lappa upp á þau. Skemmst er að minnast „viðgerðar“ á frjálsíþróttavellinum í Laugardal fyrir Smáþjóðaleikanna 2015.
  • Alltént eru liðnir þrír áratugir síðan talið var brýnt að ráðast í byggingu þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir. Þá þegar var Laugardalshöll sögð vera barn síns tíma. Hvað má þá segja í dag?

  • Landsliðin í handknattleik og körfuknattleik hafa árum saman leikið á undanþágu í Laugardalshöll. Vofað hefur yfir að alþjóða íþróttasambönd bönnuðu keppni í Höllinni sem er að verða 60 ára gömul. Höllin hefur ekki verið nothæf til kappleikja í nærri ár vegna viðgerðar í kjölfar vatnsleka og verður áfram úr leik eitthvað fram á næsta ár.
  • Eftir að hafa skrifað reglulega pistla og birt viðtöl um þetta efni í áratug lái mér hver sem vill þótt mér þyki sem skrifað hafi verið inn í svarthol og vann ég þó á þeim tíma á útbreiddari fjölmiðli en í dag. Formenn HSÍ og KKÍ hafa talað fyrir fremur daufum eyrum í am.k. áratug. Hvað mega þeir þá segja?
  • Nú er svo komið að HSÍ leikur landsleiki karla og kvenna í undankeppni stórmóta á undanþágu ofan á undanþágu. Síðari undanþágan, um að leika á Ásvöllum, hefði vætanlega ekki verið veitt á síðasta vetri ef ekki hefði staðið yfir heimsfaraldur kórónuveiru. Körfuknattleikslandslið karla gæti þurft að leika í Danmörku í næstu undankeppni eða í Færeyjum.
  • Reyndar er langsótt að íslensku landsliðin flytji heimaleiki sína til Færeyja þar sem ekkert löglegt hús er fyrir hendi. Í Færeyjum stendur reyndar fyrir dyrum að opnuð verði ný keppnishöll eftir tvö ár. Kannski verður þjóðarhöllin í Hoyvik næsta keppnishöll íslensku landsliðanna? Það sparaði a.m.k. ríki og borg útgjöld.
  • Fyrir sex árum lýsti, Guðjón Valur Sigurðsson, einn fremsti og dáðasti íþróttamaður þjóðarinnar á þessari öld, yfir áhyggjum af áhugaleysi vegna aðstöðuleysis landsliðanna, jafnt til æfinga og keppni. Síðan hefur frekar hallað undan fæti en hitt.
  • Nefnd eftir nefnd hefur verið skipuð og margir klórað sér í kollinum og skilað skýrslum. Síðasta nefnd skilaði af sér ítarlegri og góðri skýrslu fyrir rúmu ári. Frá þeim tíma virðist fátt annað hafa átt sér stað en að nefndin var beðin að sitja áfram. Hannes S. Jónsson formaður KKÍ, sagði í samtali við mbl.is í gær að hann hefði ekki hugmynd um hvar málið stæði, þó ætti hann sæti í nefndinni.

  • Ef marka má orð Pawels Bartoszek, formanns skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar í Morgunblaðinu í dag, þá iða menn ekki í skinninu yfir að ný keppnishöll verði reist í Reykjavík. Borgin vísar á ríkið og ríkið vísar á borgina. Allt er svo erfitt og útgjöldin, maður minn! Gömul saga og ný.
  • Á sama tíma heitir Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, sem má reyndar eiga það að hafa sýnt íþróttahreyfingunni einlægan áhuga á síðustu árum, nýrri keppnishöll, á næsta kjörtímabili.
  • Á morgun, á morgun…….
  • Vonandi verður þessi pistill ekki endurbirtur dag einn eftir fjögur ár af þeirri ástæðu að þá stöndum við enn í sömu sporum og í dag.

    Ívar Benediktsson, ivar@handbolti.is
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -