Ægir Hrafn mætir þegar hann verður tilbúinn

Sebastian Alexandersson, þjálfaði Fram á síðasta tímabili. Hann er þjálfari HK. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson.

Varnarmaðurinn sterki Ægir Hrafn Jónsson hefur ekkert leikið með Fram síðan hann meiddist á ökkla í viðureign ÍBV og Fram 24. janúar. Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram-liðsins, sagði við handbolta.is að óvíst væri hvenær Ægir Hrafn verði klár í slaginn á nýjan leik.


„Við bíðum spenntir eftir Ægi en heilsa hans er það sem skiptir mestu máli og þess vegna mætir hann ekki í leik með okkur fyrr en hann hann verður tilbúinn,“ sagði Sebastian sem eins og fleiri þjálfarar er með nokkuð langan lista yfir leikmenn sem eru frá um lengri eða skemmri tíma vegna meiðsla enda hefur verið mikið álag á liðunum eftir að keppni hófst loksins á ný eftir miðjan janúar.

Hörgull á örvhentum

„Okkur vantar Aron Gauta Óskarsson sem fór í aðgerð á hné í lok síðasta árs. Það er ekki líklegt að hann nái að spila með okkur á þessu tímabili. Þá er ljóst að meiðslin sem Elías Bóasson varð fyrir á hné í ágúst voru það slæm að hann fór í aðgerð í janúar og tímabilið er búið hjá honum að þessu sinni,“ segir Sebastian sem saknar þar með tveggja örvhentra leikmanna sem hann vonaðist eftir að geta teflt fram á leiktíðinni.


„Þeir eru báðir örvhentir og því er mjög þunnskipað á hægri kantinum hjá okkur. Til þess að bæta ofan á það þá er Arnar Snær Magnússon að spila meiddur. Hann er með bólgur við lífbeinið sem koma og fara. Hann mun ekki ná fullri heilsu fyrr en hann fær nógu langa hvíld að loknu tímabilinu. Við munum nota hann skynsamlega eins og ástand hans leyfir hverju sinni,“ sagði Sebastian Alexandersson þjálfari Fram.

Til viðbótar þá tognaði Valtýr Már Hákonarson markvörður á kálfa á dögunum hefur ekki getað tekið þátt í tveimur síðustu leikjum Fram.


Fram situr í níunda sæti með sjö stig eftir átta leiki og sækir Selfoss heim í Hleðsluhöllina á sunnudagskvöld klukkan 19.30.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -