Ætlum að mæta aftur hingað

Sigtryggur Daði Rúnarsson, Elmar Erlingsson, Sveinn Jose Rivera og Dagur Arnarsson, leikmenn ÍBV og Erlingur Richardsson þjálfari. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

„Það er ferlega súrt að tapa vegna þess að við vorum komnir með klassastöðu til þess að vinna og vera nánast á heimavelli með alla þessa frábæru áhorfendur með okkur. Þeir eru ómetanlegir,“ sagði Dagur Arnarsson leikmaður ÍBV í samtali við handbolta.is eftir eins marks tap ÍBV-liðsins, 31:30, fyrir Val í þriðja úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla i Origohöllinni í gærkvöld. Með sigrinum náði Valur yfirhöndinni á nýjan leik í vinningum talið, 2:1.

Mjög vont

„Mér svíður þetta tap um leið og ég er klökkur yfir þeim mikla stuðningi sem við fáum leik eftir leik. Að ná ekki að vinna leikinn fyrir stuðningsmennina okkar er mjög vont,“ sagði Dagur ennfremur. Hann skoraði þrjú mörk, var með átta sköpuð færi og sjö stoðsendingar.

Aldrei ruðningur

Dagur sagði það vera sína skoðun að rangt hafi verið að dæma ruðning á Elmar Erlingsson í síðustu sókn ÍBV á lokasekúndum leiksins. „Ég er ekki hlutlaus sem leikmaður ÍBV-liðsins en mér fannst þetta ekki vera ruðningur. Ég hef núna eftir leikinn talað við menn sem hafa skoðað upptöku af atvikinu. Þeir eru á því að ekki hafi verið um ruðning að ræða.


Dómurinn undir lokin svíður einnig því það hefði verið gaman að fara í framlengingu með allan þennan stuðning á bak við okkur.

Snúum vörn í sókn

Við erum staðráðnir í að koma til baka á heimavelli á laugardaginn, vinna og mæta hingað í Origohöllina á mánudaginn. Við erum með bakið upp við vegg en við höfum sýnt að við getum unnið og ætlum okkur það. Til þessa höfum við látið efasemdaraddirnar lönd og leið og gerum það áfram. Þrátt fyrir tap í kvöld erum við staðráðnir að vinna Íslandsmeistaratitilinn,“ sagði Dagur Arnarsson, leikmaður ÍBV, í samtali við handbolta.is í Origohöllinni í gærkvöld.


Fjórði leikur ÍBV og Vals um Íslandsmeistaratitilinn verður í Vestmannaeyjum á laugardaginn og hefst klukkan 16.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -