Áhorfendur gáfu okkur orku

Unnur Ómarsdóttir að skora eitt sjö marka sinn í kvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

„Það er alltaf gaman að skora og ennþá skemmilegra fyrir framan alla þessa áhorfendur. Þeir gáfu orku og stemningu í liðið,“ sagði Unnur Ómarsdóttir markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins með sjö mörk í níu skotum þegar Ísland vann Tyrkland, 29:22, í undankeppni Evrópumóts kvenna í handknattleik á Ásvöllum í dag.


„Það er flott að vinna og fá fólk, mynda góða stemningu eins og var hér að þessu sinni. Einnig var mjög skemmtilegt að sjá alla krakkana sem mættu með foreldrum sínum. Þau eru að leita fyrirmyndum sem er mikilvægt. Ég man vel eftir því þegar ég var smástelpa og mætti á leiki,“ sagði Unnur sem telur auk þess að mikil framfaramerki séu á íslenska landsliðinu með hverjum leik.

Mynd/Hafliði Breiðfjörð

„Við erum að byggja ofan á góðan grunn sem verður bara betri og betri, vona ég. Við vorum líka betri í síðasta leik þótt við töpuðum fyrir rest. Vegna þess þá var ég ekki í rónni fyrr en búið var að flauta til leiksloka að þessu sinni,“ sagði Unnur sem fékk högg á annað hnéið og bað um skiptingu þegar tíu mínútur voru til leiksloka.


„Nú fáum við úrslitaleikinn sem okkur langar í. Eftir rúman mánuð fáum við tvo leiki, heima gegn Svíþjóð og úti á móti Serbum. Okkur eru allir vegir færir. Serbar unnu Svía og af hverju eigum við ekki að geta gert það líka. Ég hlakka til næstu leikja. Hópurinn er frábær og það eru forréttindi að fá að vera hluti af honum,“ sagði Unnur Ómarsdóttir í samtali við handbolta.is eftir sigurinn á Ásvöllum.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -