- Auglýsing -
- Auglýsing -

Allir leikmenn lögðu í púkkið

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Stelpurnar voru frábærar í þessum leik. Þær eru eiga allar hrós skilið,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, þegar handbolti.is heyrði stuttlega í honum hljóðið eftir stórsigur Íslands á landsliði Grikkja, 31:19, í annarri umferð forkeppni HM í Skopje í gærkvöld.


„Við byrjuðum vel. Ekki síst var varnarleikurinn mjög góður. Til að byrja með vorum við í 6/0 vörn en skiptum yfir í 5/1 vörn þegar nokkuð var liðið á hálfleikinn og lékum þá vörn til leiksloka,“ sagði Arnar sem var ánægður með liðsheildina.

„Þetta var fyrst og fremst liðssigur. Allir leikmenn lögðu í púkkið að þessu sinni,” sagði Arnar ennfremur.

Fögnuður á varamannabekk íslenska landsliðsins í síðari hálfleik í leiknum við Grikki í gær. Mynd/EPA


Sunna Jónsdóttir meiddist í upphitun og tók ekkert þátt í leiknum í gær við Grikki. Arnar vildi lítið tjá sig um meiðslin. Sagðist gera sér góðar vonir um að Sunna verði með í dag í úrslitaleiknum við Litháen. Sunna lék mjög stórt hlutverki í íslenska liðinu í leiknum við Norður-Makedóníu á föstudagskvöld, var nánast allt í öllu, jafnt í vörn sem sókn. Hennar hlutverk stækkaði þegar Steinunn Björnsdóttir meiddist alvarlega eftir tæplega stundarfjórðungs leik gegn Norður-Makedóníu.


Sem fyrr segir er framundan úrslitaleikur við Litháen í dag um að fylgja landsliði Norður-Makedóníu í umspilið um HM sæti í vor. Litháen og Ísland eru hvort um sig með einn vinning eftir tvo leiki. Markahlutfall íslenska landsliðsins er hagstæðara eftir tíu marka tap Litháen fyrir Norður-Makedóníu í gær, 31:21.

Gefur ekki rétta mynd

Arnar sagði leikinn við Litháen í dag verða erfiðan. „Tíu marka tap Litháen gegn Norður-Makedóníu gefur ekki rétt mynd af leiknum, að mínu mati. Litháar spiluðu betur í dag gegn Norður-Makedóníu en þeir gerðu gegn Grikkjum á föstudag. Við erum á leið í hörku verkefni gegn Litháen, það er alveg ljóst,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna í samtali við handbolta.is í gærkvöld.


Viðureign Íslands og Litháen hefst klukkan 18 í dag og mun handbolti.is tengjast streymi frá leiknum eins og í fyrri tveimur viðureignum Íslands í forkeppninni. Tengill á streymið verður kynntur þegar nær dregur viðureigninni.

Eva Björk Davíðsdótir, Rut Arnfjörð Jónsdóttir, Harpa Valey Gylfadóttir, Helena Rut Örvarsdóttir, Ragnheiður Júlíusdóttir glaðar í bragði eftir sigurinn á Grikkjum. Ágúst Þór Jóhannsson, aðstoðarþjálfari, er að baki konunum. Mynd/EPA

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -