- Auglýsing -
- Auglýsing -

Alveg sturlað að taka þátt í þessu

Viktor Gísli Hallgrímsson annar frá hægri ásamt félögum sínum með meistarabikarinn eftir sigurinn í gær. Mynd/Aðsend
- Auglýsing -

„Loksins, eftir þrjú ár tókst okkur að hafa betur í kapphlaupinu við Aalborg og vinna fyrsta meistaratitil GOG í fimmtán ár. Það var bara alveg sturlað,“ sagði landsliðsmarkvörðurinn og nýkrýndur Danmerkurmeistari í handknattleik karla, Viktor Gísli Hallgrímsson, þegar handbolti.is sló á símann til hans í morgun.


Eins og kom fram á handbolta.is í gær þá tryggði GOG frá Svendborg á Fjóni sér meistaratitilinn með sigri á Aalborg Håndbold, meistara síðustu þriggja ára, í síðari úrslitaleik liðanna um titilinn, 27:26. Leikið var í Álaborg. Fyrri viðureigninni lauk með jafntefli.

Löng rútuferð og mikið stuð

„Rútuferðin heim var mjög löng og skemmtileg með löngum stoppum á milli enda var mikið stuð á mönnum,“ sagði Viktor Gísli sem var eðlilega léttur í bragði. Í dag stendur fyrir dyrum veisla til að fagna meistaratitilinum og á morgun fer GOG liðið í móttöku hjá borgarstjóranum í Svendborg á Fjóni. Fyrri hluti vikunnar fer í að halda upp á fyrsta meistaratitil GOG í hálfan annan áratug, njóta sigursins áður en alvaran tekur við á nýjan leik en Viktor Gísli flytur til Nantes í Frakklandi á næstu vikum.

Viktor Gísli Hallgrímsson með danska meistarabikarinn. Mynd/Aðsend

Herslumuninn hefur skort

GOG hefur veitt Aalborg harða keppni á síðustu árum en vantað herslumuninn til að velta liðinu úr hásætinu þegar á hólminn hefur verið komið. „Síðustu tvö ár höfum við orðið deildarmeistarar en ekki náð að toppa Álaborgarliðið á endasprettinum. Leikurinn í gær var sá fyrsti um langt skeið þar sem okkur tekst að vinna þá á síðustu mínútum. Yfirleitt hefur það verið þannig að við höfum verið með yfirhöndina framan en þeir haft betur í lokin. Nú tókst okkur að koma til baka á síðustu 15 mínútunum,“ sagði Viktor Gísli en GOG var þremur mörkum undir, 19:16, þegar rúmlega stundarfjórðungur var til leiksloka og jafna stöðu þegar sex mínútur lifðu af leiktímanum.

Ekki hægt að kveðja á betri hátt

Úrslitaleikurinn í gær var sá síðasti hjá Viktori Gísla með GOG eftir þriggja ára veru hjá félaginu. Hann segir vart hægt að ljúka verunni hjá félaginu á betri en hátt en raun ber vitni. Fleiri leikmenn eru á förum og má þar m.a. nefna danska landsliðsmanninn Mathias Gidsel. „Það var mjög mikilvægt fyrir okkur að vinna titilinn áður en Mikkel Hansen og Niklas Landin snúa heim og byrja að leika með Aalborg. Þá gæti orðið mjög erfitt fyrir GOG að vinna titilinn,“ sagði Viktor Gísli léttur í bragði sem varð bikarmeistari með GOG haustið 2020.

Flutningabílinn er væntanlegur

Eftir að hafa fagnað Danmerkurmeistaratitlinum tekur við flutningur til Nantes sem hafnaði í öðru sæti frönsku 1. deildarinnar á dögunum. „Flutningabíllinn kemur eftir fjóra daga til þess að flytja búslóðina. Eftir það fer maður heim til Íslands í frí,“ sagði Viktor Gísli sem á að mæta á sína fyrstu æfingu hjá Nantes 20. júlí.

Hræðist ekki samkeppnina

„Það verður töluverð breyting að koma til Frakklands. Munurinn á Íslandi og Danmörku er kannski ekki mikill en Frakkland verður allt annað en afar spennandi að fást við,“ segir Viktor Gísli fær harða keppni hjá franska liðinu sem skiptir út báðum markvörðum sínum í sumar. Auk Viktors Gísla kemur Ivan Pesic, landsliðsmarkvörður Króata til félagsins. „Það er bara fínt að fá tvo nýja markverði inn á sama tíma. Þar með verður samkeppnin jöfn frá fyrsta degi. Ég hræðist ekki samkeppnina.“

Danmerkurmeistarar 2022, GOG. Mynd/Aðsend

Mjög gott félag fyrir unga leikmenn

Viktor Gísli segir árin þrjú hjá GOG hafa verið mjög góður tími fyrir sig. „GOG er mjög gott félag fyrir unga íslenska handknattleiksmenn sem vilja reyna eitthvað nýtt. Um er að ræða mikið fjölskyldufélag sem leggur mikla áherslu á að vera með marga unga leikmenn innan sinna raða. Fyrir vikið er auðvelt að komast inn í hópinn. Auk þess er akademían hjá félaginu sú besta í Danmörku. Úr henni hafa komið og koma enn margir ungir og frábærir handboltamenn. Þjálfunin öll er mjög góð hjá félaginu,“ segir Viktor Gísli sem mælir sterklega með GOG sem hefur fóstrað hann síðustu þrjú ár. Sjálfur er hann mikið öflugri markvörður í dag en fyrir þremur árum.

Lærdómsrík ár í Danmörku

„Ég hef lært margt á síðustu þremur árum. Auk handboltans þá hefur maður orðið að standa á eigin fótum og læra á sjálfan sig. Svo hefur maður styrkst mikið sem markvörður. Tíminn hefur verið fljótur að líða þótt á ýmsu hafi gengið svo maður fékk að kynnast ýmsu á covidtímanum.“


Tímabilið 2020/2021 var Viktor Gísli aðalmarkvörður GOG en í vetur sem leið var hann númer tvö á eftir norska landsliðsmarkverðinum Torbjørn Bergerud sem kom til félagsins fyrir ári og kveður það núna um leið og íslenski markvörðurinn. Bergerud hefur samið við Kolstad í Noregi.

Mikilvægasta tímabilið?

„Í fyrsta sinn á ferlinum þá var ég í vetur markvörður númer tvö. Það var erfitt á tímabili en um leið afar lærdómsríkt að kynnast og æfa með Bergerud. Ég hef lært mjög mikið af honum. Ég reikna með því að þegar ég lít til baka á ferilinn eftir nokkur ár þá hafi síðasta tímabil verið það mikilvægast á ferlinum, það að takast á við nýjar áskoranir.


Meðan Bergerud var frá vegna meiðsla í vor þá lék ég sennilega betur en nokkru sinni fyrr. Það reyndist mér svolítið erfitt þegar hann kom til baka aftur og fékk byrjunarliðssætið. En ég fékk tækifæri af og til eftir það og meðal annars að vera með í leiknum í gær í svolítinn tíma sem var gaman,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson Danmerkurmeistari í handknattleik sem varði m.a. eitt vítakast í úrslitaleiknum í Álaborg í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -