Andri til Aftureldingar – markvarðakapallinn er að ganga upp

Andri Sigmarsson Scheving, leikur með Aftureldingu á næsta keppnistímabili. Mynd/Haukar

Markvörðurinn Andri Sigmarsson Scheving hefur verið lánaður til Aftureldingar þar sem hann mun leika á næsta tímabili en Andri framlengdi samning sinn við Hauka fyrr á árinu. Frá þessu er greint í tilkynningu sem handknattleiksdeild Hauka sendu frá sér í kvöld. Með þessu er stóri markvarðakapallinn að ganga upp en hann hefur verið eitt verst geymda leyndarmál handboltans á Íslandi undanfarnar vikur.


Eftir því sem handbolti.is hefur fregnað á Andri að fylla skarð Arnórs Freys Stefánssonar sem gengur til liðs við Stjörnuna. Arnór Freyr var kvaddur í hófi meistaraflokks Aftureldingar fyrir rúmri viku. Brynjar Darri Baldursson, sem varið hefur mark Stjörnunnar undanfarin ár, ætlar að rifa seglin og einbeita sér að námi í arkitektúr, samkvæmt heimildum handbolta.is.

Nokkuð er síðan Haukar greindu frá því að þeir hafi samið við Aron Rafn Eðvarðsson fyrir næsta keppnistímabil. Til viðbótar hefur Stefán Huldar Stefánsson verið kallaður úr láni hjá Gróttu.

Andri Scheving sem er 21 árs hefur verið annar af markvörðum meistaraflokks karla undanfarin fjögur ár ásamt því að vera aðalmarkvörður U-liðs Hauka þar sem hann hefur meðal annars verið kosinn besti markvörður Grill 66 deildarinnar.


„Andri sem hefur leikið fyrir öll yngri landslið Íslands mun fá dýrmæta reynslu hjá Aftureldingu þar sem honum er ætlað stórt hlutverk en hjá Aftureldingu hittir hann Gunnar Magnússon fyrrverandi þjálfara Hauka. Haukar óska Andra góðs gengis í Mosfellsbænum og hlakka til að sjá hann spreyta sig í nýju umhverfi,“ segir m.a. í tilkynningu handknattleiksdeildar Hauka.


- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -