Andstæðingur Íslands á morgun vann í kvöld

Mindaugas Andriuska landsliðsþjálfari Litháen í karlaflokki. Mynd/heimasíða Handknattleikssambands Litháen.

Ísraelsmenn unnu sinni fyrsta leik í undankeppni EM í handknattleik karla þegar þeir lögðu Litáa, 34:28, í Tel Aviv í kvöld en þjóðirnar eru með Íslandi og Portúgal í riðli. Íslenska landsliðið mætir ísraelska landsliðinu í Tel Aviv klukkan 17.30 á morgun.


Ísraelsmenn voru sterkari í kvöld. Þeir voru með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Rétt eftir miðjan síðari hálfleik þá skoruðu þeir fjögur mörk í röð og breyttu stöðunni úr 8:7 í 12:7. Litáar klóruðu aðeins í bakkann en náðu aldrei að jafna metin og voru fjórum mörkum undir í hálfleik 15:11.


Í síðari hálfleik höfðu ferðalúnir Litáar ekki uppi neina tilburði til að jafna metin. Þeir lentu sjö mörkum undir um skeið og máttu sætta sig við tap.
Yermiyahu Avihu Amiel Sidi skoraði 11 mörk fyrir ísraelska liðið og Yoav Lumbroso var næstur með sjö mörk. Mindaugas Urbonas skoraði átta mörk fyrir Litáa og var þeirra markahæstur. Zanas Virbauskas skoraði sjö sinnum.

Vantaði nokkra menn

Litáar voru ekki með sitt sterkasta lið í leiknum. Aidenas Malašinskas, Jonas Truchanovičius og Valdas Drabavičius komust ekki með. Ráðgert er að þeir geti teki þátt í leiknum við Íslendinga í Vilnius á fimmtudaginn eftir því sem fram kemur á heimasíðu Handknattleikssambands Litáens. Tveir leikmenn, Arminas Stankūnas and Deividas Jovaišas, urðu eftir heima vegna þess að þeir eru smitaðir af kórónuveirunni.


Skirmantas Plėtai, Mindaugas Dumčius, fyrrverandi leikmaður Akureyrar handboltafélags, Deividas Virbauskas, Benas Petreikis Vilius Rašimas eru heldur ekki með en sá síðarnefndi er markvörður Selfoss-liðsins og var í eldlínunni með Selfoss gegn ÍR í Olísdeildinni í gær.


Portúgal er í efsta sæti riðilsins með sex stig eftir fjóra leiki. Íslenska landsliðið er með fjögur stig eftir þrjá leiki og Ísrael og Litáen eru með tvö stig hvor, Ísraelsmenn eftir þrjá leiki en Litáar að loknum fjórum leikjum.

Ísraelska landsliðið mætir íslenska landsliðinu á morgun, tekur á móti Portúgölum á fimmtudag og kemur til Íslands um næstu helgi og leikur á ný við íslenska landsliðið í Schenkerhöllinni á sunnudaginn.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -