- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aftur gekk gullið tækifæri úr greipum Hauka

Sara Odden var markahæst hjá Haukum í dag. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Annan leikinn í röð fengu leikmenn Hauka gullið tækifæri á síðustu sekúndu til þess að hirða bæði stigin þegar þeir tóku á móti ÍBV í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í kvöld í Olísdeild kvenna í handknattleik. Allt kom fyrir ekki og niðurstaðan var jafntefli, 21:21, sem sennilega var sanngjörn niðurstaða þegar upp var staðið þótt vissulega hafi bæði lið gengið vonsvikin af leikvelli.

Haukar áttu þess einnig kost að tryggja sér bæði stigin gegn KA/Þór á síðasta laugardag.


Haukar hafa þar með 11 stig í fimmta sæti en ÍBV er með 14 stig í fjórða sæti, stigi á eftir Val.


Fyrri hálfleikur var hnífjafn. Aldrei var meiri munur á liðunum en eitt mark á annan hvorn veginn. Þegar tækifæri gafst á að ná meira forskoti þá runnu sóknirnar oft út í sandinn.


Talsvert um ónákvæmar sendingar hjá leikmönnum liðanna, ekki hjá Haukum.


Staðan að loknum fyrri hálfleik var jöfn, 13:13.


Það tók leikmenn Hauka rúmar sex mínútur að brjóta ísinn í síðari hálfleik og skora fyrsta markið. Til lánsins fyrir liðið hafði ÍBV ekki tekist að gera kápu úr því klæðinu og aðeins lánast að skora tvö mörk. Haukar skoruðu þrjú mörk í röð en ÍBV svaraði með fjórum mörkum í kippu og náðu þriggja marka forskoti, 19:16, þegar 13 mínútur voru til leiksloka. Sóknarleikur Hauka hafði þá verið lamaður um nokkurt skeið. Eyjaliðið hafði bakkað aftur á línu auk þess sem markvörðurinn Darija Zecevic var vel með á nótunum.


Eins og hendi væri veifað rann hamur á sóknarmenn Hauka sem jöfnuðu metin eftir nærri 10 markalausar mínútur, 19:19, þegar níu mínútur voru eftir af leiktímanum.

Spennan var mikil og jafnt á öllum tölum síðustu 10 mínúturnar. Hver sóknin á fætur annarri rann út í sandinn, engu var líkara en hvorugt liðið þyrði að taka af skarið og vinna.

ÍBV missti boltann þegar 14 sekúndur voru eftir. Haukar tóku leikhlé og lögðu á ráðinn í sókn sem lauk með að Zecevic markvörður ÍBV varði skot Ragnheiðar Ragnarsdóttur. Zecevic kórónaði þar með frábæran leik sinn en hún lék í markinu allan síðari hálfleikinn og lokakafla þess fyrri.


Sunna Jónsdóttir var allt í öllu í liði ÍBV, jafnt í vörn sem sókn. Oft var eins hún nýti ekki fyllstu sanngirni hjá dómurum leiksins.


Annika Friðheim Petersen átti stórleik í marki Hauka og hélt liðinu á floti á köflum.

Leiksins verður annars seint minnst fyrir stórbrotinn sóknarleik.


Mörk Hauka: Sara Odden 5, Berta Rut Harðardóttir 4/1, Rakel Sigurðardóttir 3, Karen Helga Díönudóttir 3, Birta Lind Jóhannsdóttir 3, Hekla Rún Ámundadóttirr 2, Guðrún Jenný Sigurðardóttir 1.
Varin skot: Annika Friðheim Petersen 17, 44,7%.
Mörk ÍBV: Sunna Jónsdóttir 5, Birna Berg Haraldsdóttir 3, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 3, Karolina Olszowa 3, Elísa Elíasdóttir 3, Ásta Björt Júlíusdóttir 2/1, Harpa Valey Gylfadóttir 1, Lina Cardell 1.
Varin skot: Darja Zecevic 13, 50% – Marta Wawrzykowska 2, 20%.

Öll tölfræði leiksins á HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -