Arnar Birkir kominn aftur til Danmerkur

Arnar Birkir Hálfdánsson verður leikmaður Ribe-Esbjerg næstu tvö ár. Mynd/Ribe-Esbjerg

Handknattleiksmaðurinn Arnar Birkir Hálfdánsson hefur ákveðið að snúa aftur til Danmerkur eftir tveggja ára veru hjá EHV Aue í þýsku 2. deildinni. Stórskyttan örvhenta hefur samið við úrvalsdeildarliðið Ribe-Esbjerg til tveggja ára, eða út leiktímabilið vorið 2024.


Arnar Birkir, sem er 28 ára gamall, lék með Fram, ÍR og FH hér heima áður en hann gekk til liðs við SønderjyskE vorið 2018 og lék með liðinu í tvö ár eða þangað til hann flutti sig yfir til austurhluta Þýskalands hvar hann var í stóru hlutverki hjá EHV Aue sem féll í 3. deild á dögunum.

Einn þriggja Íslendinga

Arnar Birkir verður þar með þriðji Íslendingurinn í herbúðum Ribe-Esbjerg á næsta tímabili. Áður hefur markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson og Elvar Ásgeirsson samið við liðið fyrir næsta keppnistímabil.


Þetta er verður síður en svo í fyrsta sinn sem þrír Íslendingar leika með liði félagsins á sama tíma en frá 2019 til 2021 voru Daníel Þór Ingason, Gunnar Steinn Jónsson og Rúnar Kárason liðsmenn Ribe-Esbjerg á sama tíma. Fleiri Íslendingar hafa í gegnum tíðina leikið með liðum félaganna sem slógu sér saman með keppnislið í karlaflokki fyrir nokkrum árum.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -