- Auglýsing -
- Auglýsing -

Arnór og félagar í átta liða úrslit í fyrsta sinn

Felix Claar hefur snúið á Victor Iturizza á leikmann Porto í leiknum í Álaborg í dag. Þeir voru markahæstu menn sinna liða. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Arnór Atlason og félagar í danska meistaraliðinu Aalborg Håndbold eru komnir í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir ævintýralegan sigur á Porto, 27:24, á heimavelli í dag. Álaborgarliðið komst áfram á fleiri mörkum á útivelli þar sem liðið skoraði 29 mörk gegn 32 mörkum Porto. Arnór er aðstoðarþjálfari Aalborg.


Þetta er í fyrsta sinn sem Aalborg Håndbold tryggir sér sæti í átta liða úrslitum í Meistaradeild Evrópu.


Leikmenn Porto fengu tækifæri í lokin til þess að minnka forskot Aalborg í tvö mörk og fara áfram en skot úr opnu færi úr hægra horni sex sekúndum fyrir leikslok fór framhjá danska markinu.


Sigurinn var afar torsóttur því lengst af var viðureignin jöfn og það var fyrst í stöðunni 19:17, sem Aalborg náðu loks tveggja marka forskoti. Fimm mínútum fyrir leiksloka var liðið aftur komið með tveggja marka forskot, 24:22, og þriggja marka forskot var loksins í höfn eftir 57 mínútur, 26:23. Það auðveldaði danska liðinu ekki róðurinn þegar Felix Claar var vísað af leikvelli í tvær mínútur hálfri þriðju mínútu fyrir leikslok. Upp úr því varði Mikael Aggerfors vítakast frá Antonio Areira sem vóg þungt.


Magnus Saugstrup skoraði 27. markið 50 sekúndum fyrir leikslok, 27:24. Porto-liðið hélt boltanum eins lengi og það gat og fékk tækifæri til að skora 25. markið en færið var í þrengra lagi og skotið fór framhjá.


Felix Claar skoraði sex mörk og átti fimm stoðsendingar fyrir Aalborg. Magnus Saugstrup, Mark Strandgaard og Henrik Möllegard skoruðu fjögur mörk hver. Línumaðurinn Víctor Inturriza skoraði sex mörk fyrir Porto.
Markverðir liðanna voru þeirra bestu menn. Nikola Mítrevski varði frábærlega í marki Porto, ekki síst í fyrri hálfleik, alls 15 skot, 37%. Simon Gade varði einnig 15 skot í marki Aalborg, 39%.


Aalborg mætir Flensburg í átta liða úrslitum Meistaradeildar en með Flensburg leikur Alexander Petersson.


Evrópumeistarar Kiel eru einnig komnir í átta liða úrslit eftir að hafa unnið Pick Szeged á heimavelli, 33:28, í dag en það eru sömu úrslit og voru í fyrri viðureign liðanna í Ungverjalandi í síðustu viku.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -