Átta mig ekki almennilega á þessu

Feðgarnir Elmar Erlingsson og Erlingur Richardsson stóðu í ströngu með ÍBV liðinu í dag. Mynd/Halldór Sævar

„Ég átt mig ekki almennilega á þessu ennþá,“ sagði Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV þegar handbolti.is náði tali af honum eftir sigur ÍBV á Val, 33:31, í annarri viðureign liðanna í úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í Vestmannaeyjum í dag. Erlingur var þar að svara þeirri spurningu hvað breyttist á lokakafla leiksins þegar ÍBV sneri leiknum sér í hag á nokkrum mínútum og jafnaði metin, 1:1, í sigurleikjum talið.


„Þetta var bara gríðarlegur karakter sem skein í gegnum allt hjá strákunum,“ sagði Erlingur yfirvegaður að vanda. „Björn varði mjög vel á lokakaflanum, mörg mikilvæg skot og svo varð munurinn aldrei mikill. Það þurfti kannski ekki mikið til þess að snúa taflinu við og það var sem okkur tókst,“ sagði Erlingur ennfremur.

Einn leik í viðbót fyrir fólkið okkar

„Okkur tókst að hanga í tveimur til þremur mörkum, munurinn var einu sinni fimm mörk Val í hag snemma í síðari hálfleik. Þetta var bara spurning um halda áfram og grípa tækifærið ef það gæfist og það gafst,“ sagði Erlingur sem var ánægður með varnarleikinn frá upphafi til enda. Einnig skipti miklu máli að það tókst að fækka sóknarmistökum þegar á leið og fá Valsmenn oftar til þess að stilla upp í hefðbundinn sóknarleik.


„Við urðum að bíta frá okkur og gefa fólkinu okkar einn heimaleik til viðbótar og það tókst,” sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, í stuttu samtali við handbolta.is rétt eftir að flautað var til leiksloka í Vestmannaeyjum í kvöld.
Næsta viðureign Vals og ÍBV í úrslitakeppninni verður á heimavelli Vals, Origohöllinni, á miðvikudagskvöld.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -