- Auglýsing -
- Auglýsing -

Auðveldara þegar vörnin smellur saman

Katrín Ósk Magnúsdóttir, markvörður Fram, átti stórleik í kvöld gegn Stjörnunni. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Katrín Ósk Magnúsdóttir fór á kostum í marki Fram í gærkvöld þegar Fram vann Stjörnuna með sjö marka mun, 33:26, í viðureign liðanna í Olísdeild kvenna í handknattleik í TM-höllinni í Garðabæ. Hún varði 17 skot, var með um 50% hlutfallsmarkvörslu og var á tíðum leikmönnum Stjörnunnar afar óþægur ljár í þúfu.


„Vörnin small vel saman hjá okkur og sóknarleikurinn var frábær í framhaldinu,“ sagði Katrín Ósk sem vildi ekki þakka sjálfri sér fyrir þau umskipti sem urðu á leik Fram-liðsins þegar það stóð höllum fæti eftir um 20 mínútna leik í TM-höllinni í gærkvöld.

„Við vorum bara alls ekki með á nótunum framan af en eftir að Stebbi þjálfari tók leikhlé og öskraði á okkur var eins og við vöknuðum. Vörnin small og við fengum mörg hraðaupphlaup í framhaldinu. Þannig náðum við að minnka muninn og komast inn í leikinn undir lok fyrri hálfleiks,“ sagði Katrín Ósk sem vildi ekki útiloka að slök byrjun Fram-liðsins í leiknum hafi verið vegna þess að stress hafi blundað í leikmönnum eftir slæmt tap fyrir KA/Þór á laugardaginn þar sem Safamýrarliðið fann aldrei taktinn í sínum leik.

Frábært markavarðateymi

„Við Sara Sif Helgadóttir myndum frábært markmannsteymi hjá Fram. Við styðjum vel við bakið á hvor annarri. Þegar vörnin nær vel saman eins og hún gerði þegar á leikinn leið þá gerir það mér auðveldar að taka þau skot sem ég á að verja. Það má segja að mér hafi gengið eins og í sögu,“ sagði Kartín Ósk sem viðurkenndi að önnur eins frammistaða og hún sýndi í leiknum styrkti sjálfstraustið. Hlutverk hennar hefur verið stærra hjá Fram-liðinu á leiktíðinni en á þeirri síðustu þegar landsliðsmarkvörðurinn Hafdís Renötudóttir stóð lengst af á milli stanganna hjá Fram.

Katrín Ósk segist sjá Fram í áframhaldandi spennandi keppni í Olísdeildinni þar sem svo virðist að sjö af liðunum átta í deildinni geta unnið hvert annað á góðum degi. Þrjú lið, Fram, KA/Þór og Valur eru jöfn með 10 stig í efstu sætunum þremur og síðan eru Stjarnan, ÍBV, Haukar og HK skammt á eftir.

Selfyssingar heilla Framara

„Keppnin er spennandi og þess vegna skiptir hvert einasta stig mjög miklu máli,“ sagði Katrín Ósk sem er á sínu öðru leiktímabili með Fram-liðinu. Hún kom til Safamýrarliðsins frá Selfossi sumarið 2019 og alls ekki eini Selfyssingurinn í herbúðum Fram. Einnig er þar að finna Kristrúnu Steinþórsdóttur og Perlu Ruth Albertsdóttur. Sú síðarnefnda er í barnsburðarleyfi um þessar mundir.

„Framarar eru greinilega flinkir að tala við Selfyssinga, eitthvað er það,” sagði Katrín Ósk Magnúsdóttir, markvörður Fram sposk á svip þegar handbolti.is hitti hana eftir leikinn í TM-höllinni í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -