- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Auðvitað sagði ég já“

Frænkurnar og markverðirnir, Elín Jóna Þorsteinsdóttir t.v. og Margrét Einarsdóttir t.h. fyrir utan hótelið sem íslenska landsliðið dvelur á Zrenjanin. Mynd/Þorkell Gunnar
- Auglýsing -

„Ég fékk símtal rétt fyrir klukkan ellefu á miðvikudagskvöldið og var spurð hvort ég gæti verið tilbúin að fara út með landsliðinu í fyrramálið. Auðvitað sagði ég já,“ sagði Margrét Einarsdóttir sem skyndilega og fremur óvænt var kölluð inn í íslenska landsliðið í handknattleik nokkrum klukkustundum áður en það fór til Serbíu í gærmorgun. Margrét var nýkomin til síns heima frá Ásvöllum eftir að hafa verið áhorfandi á leik Íslands og Svíþjóðar í undankeppni EM þegar síminn hringdi.

Margrét er einn þriggja markvarða íslenska landsliðsins. Elín Jóna Þorsteinsdóttir kenndi sér eymsla í leiknum við Svía og þótti Arnari Péturssyni landsliðsþjálfara vissara að bæta þriðja markverðinum í hópinn til að hafa varann á. Klukkan hálf fimm aðfaranótt fimmtudagsins var Margrét mætt í hópinn sem safnaðist saman í Laugardal til brottfarar til Serbíu.

Tók þátt í æfingum

„Ég er afar glöð og þakklát fyrir að fá tækifæri til þess að fara með í ferðina og að hafa verið boðuð á tvær æfingar sem urðu þrjár og síðan fjórar fyrir leikina við Svía. Allt í einu er ég komin hingað út,“ sagði Margrét þegar handbolti.is rabbaði við hana eftir komu landsliðsins til Zrenjanin í Serbíu í gærkvöld.

„Þetta er bara algjör draumur og engin spurning um að láta slag standa þegar tækifærið opnast. Ég á reyndar eftir að láta vita um að ég komi ekki vinnuna á morgun,“ sagði Margrét sposk á svip.

Hefur aldrei leikið með A-landsliðinu

Margrét er markvörður Hauka. Hún er 21 árs gömul og hefur aldrei leikið með A-landsliðinu en á talsvert af leikjum með yngri landsliðunum

Spurð hvort aðstæður hafi leyft að stökkva af stað til Serbíu með nokkurra klukkustunda fyrirvara sagði Margrét svo hafa verið. Hún er í námi samhliða vinnu í skóla auk sjálfstæðs atvinnurekstrar.

Rekur eigið fyrirtæki

„Ég fer ekki í próf fyrr en í næstu viku háskólanum þess utan þá vinn ég líka á afar sveigjanlegum vinnustað þar sem ég get komist frá með skömmum fyrirvara. Þess utan er ég í eigin kvikmyndaverkefnum sem ég stýri nokkuð sjálf hvenær ég sinni,“ sagði Margrét sem á eigið kvikmyndafyrirtæki, Kvísl Productions.

„Ég tek að mér ýmis smærri kvikmyndaverkefni svo sem að taka upp, klippa og margt fleira sem þessu fylgir, fyrir tónlistarfólk og fyrirtæki,“ sagði Margrét sem stofnaði fyrirtækið fyrir tveimur árum eftir að hafa stundað nám við Kvikmyndaskólann.

Byrjaði hjá Fylki

Margrét lék upp yngri flokka með Fylki í Árbæ. Margrét æfði og lék með KA/Þór meðan hún stundaði nám á Akureyri en að dvölinni nyrðra lokinni mætti Margrét á ný til leiks með Fylki. „Ég var nálægt því að fara upp í Olísdeildina í gegnum umspil með Fylki vorið 2019. Því miður tókst það ekki,“ sagði Margrét sem fór eftir það til Vals sumarið 2019.

Samningurinn á Hlíðarenda rann út fyrir um ári og þá samdi Margrét við Hauka hvar hún hefur verið markvörður í vetur. Líkar henni vel við lífið hjá Haukum.

Verður „stand by“

„Ég er bara ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að fara út með landsliðinu í þetta verkefni,“ sagði Margrét Einarsdóttir. Óvíst er hvort hún tekur þátt í leiknum við Serba á morgun. Allt fer það eftir hvort Elína Jóna treystir sér til þess að taka þátt eða ekki. Margrét sagði verða “stand by”.

Viðureign Serbíu og Íslands hefst klukkan 16 á morgun laugardag í Kristalna Dvorana, Kristalshöllinni, í Zrenjanin í Serbíu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -