Axel verður í eldlínunni í Meistaradeildinni

Axel Stefánsson t.h. veltir íbyggin fyrir sér stöðu mála ásamt kollega sínum en saman þjálfara þeir lið Storhamar. Mynd/Storhamar Håndball Elite

Norska handknattleiksliðið Storhamar Handball Elite, en Axel Stefánsson er annar þjálfari liðsins, fékk sæti í Meistaradeild kvenna í handknattleik á næsta keppnistímabili. Félagið fékk svokallað „wild card“ eða sérstakt keppnisleyfi, eins og sex önnur lið. Handknattleiksssamband Evrópu, EHF, greindi frá þessu í morgun.


Storhamar, sem hafnaði í öðru sæti í norsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, hefur aldrei áður tekið þátt í Meistaradeild kvenna. Axel verður aðeins annar íslenski þjálfarinn til þess að stýra liði í keppninni. Hinn er Kristján Halldórsson sem var með norska meistaraliðið Larvik í Meistaradeildinni keppnistímabilið 1997/1998.


Hin liðin sem fengu jákvæðar undirtektir við ósk um sæti í Meistaradeild kvenna á næsta tímabili eru DHK Banik Most frá Tékklandi, Brest Bretagne frá Frakklandi, ungverska liðið FTC Rail-Cargo Hungaria (Ferencvaros), CSM Bucaresti frá Rúmeníu, RK Krim Mercator frá Slóveníu og tyrkneska liðið Kastamonu Belediyesi.


Ósk frá Borussia Dortmund var hafnað en liðinu var vísað í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.


Fyrirfram var vitað að eftirtalin lið væri örugg um sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð:


RK Lokomotiva Zagreb frá Króatíu, dönsku liðin Odense Håndbold og Team Esbjerg, Metz Handball frá Frakklandi, þýsku meistararnir SG BBM Bietigheim, ungversku meistararnir í Györi Audi ETO KC, Buducnost BEMAX frá Svartfjallalandi, rúmensku meistararnir Rapid Bucuresti, og síðast en ekki síst Evrópumeistarar tveggja síðustu ára, Noregsmeistarar Vipers Kristiansand.


Dregið verður í tvo átta liða riðla á föstudaginn en fyrstu tveir leikdagar tímabilsins verða 10. og 11. september.


Fleiri lið fengu „wild card“ í Meistaradeild karla og kvenna að þessu en oftast áður. Helgast það ekki í síst af fjarveru liða frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi sem EHF heimilar ekki þátttöku. Til að mynda hafa Rússar átt tvö lið árum saman í Meistaradeild kvenna.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -