- Auglýsing -
- Auglýsing -

Bannað að dissa smáatriðin er lærdómur tímabilsins

Sebastian Alexandersson, þjálfaði Fram á síðasta tímabili. Hann er þjálfari HK. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson.
- Auglýsing -

„Það er áfall að ná ekki þeim markmiðum sem eru sett. Mér finnst við eiga það skilið að komast í átta liða úrslit því liðið hefur leikið vel á keppnistímabilinu. Meira að segja á þeim dögum þar sem við vorum ekki góðir þá náðum þó að vera í leik,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram, vonsvikinn eftir að ljóst varð eftir 21. og næst síðustu umferð Olísdeildarinnar síðdegis að Framarar taka ekki þátt í úrslitakeppninni sem framundan er. Þremur stigum munar á Aftureldingu og Fram í áttunda og níunda sæti fyrir lokaumferðin. Hlutskipti Fram verður níunda sætið.

„Við höfum lokið 21 leik og af þeim get ég aðeins verið virkilega óánægður með Framliðið í einum leik gegn Selfossi, sem var sá síðasti á undan leiknum í dag við Gróttu. Gegn Selfossi vorum við ólíkir sjálfum okkur, algjörlega út úr karakter,“ sagði Sebastian sem kveður Fram eftir keppnistímabilið og tekur við þjálfun HK ásamt félaga sínum við þjálfun Fram-liðsins Guðfinni Arnari Kristmannssyni.

Tekið gríðarlegum framförum

„Við erum á góðum stað og höfum tekið gríðarlegum framförum á keppnistímabilinu. Staðreyndin er sú að við eigum að vera með 23 stig í dag en ekki 20. Við gáfum frá okkur tvö stig gegn ÍBV og eitt stig á móti Stjörnunni. Þessi þrjú stig eru bara tímabilið fyrir okkur. Ég verð, lengi, lengi að jafna mig á þessu.“

Nokkrar rangar ákvaðanir

„Fyrr í vetur sagði ég að fenginni biturri reynslu að smáatriðin skipta miklu máli þegar upp er staðið. Enn og aftur eru smáatriðin að koma í veg fyrir að ég nái mínum markmiðum og við sem lið. Það er lærdómur fyrir mig og leikmennina að bannað er að dissa smáatriðin. Eins og ég er mjög svo ánægður með liðið þá eru það mikil vonbrigði að ná ekki markmiðum vegna nokkurra rangra ákvarðana sem teknar eru fyrr í vetur.“

Mætum í Garðabæ til að vinna

„Ég og strákarnir erum ekki af baki dottnir. Við ætlum að mæta í Garðabæinn á fimmtudaginn og vinna leikinn og sýna fram á að árangur okkar í vetur er ekki heppni eða tilviljun. Fram er á þeim stað að eðlilegt framhald er að liðið verði í toppbaráttu,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram, í samtali við handbolta.is í Framhúsinu síðdegis í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -