Baráttusigur á Finnum í Skopje

Leikmenn íslenska landsliðsins fagna góðum sigri á Finnum á EM í dag. Mynd/EHF

Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, vann sinn fyrsta leik í B-deild Evrópumótsins í handknattleik í dag þegar það lagði finnska landsliðið, 30:27, í hörkuleik í annarri umferð A-riðils keppninnar í Skopje í Norður Makedóníu. Íslenska liðið var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 17:15.

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir fagnar með samherjum í leikslok. Mynd/EHF


Þar með hefur íslenska liðið unnið einn og tapað einum í keppninni. Næsti leikur verður gegn pólska landsliðinu klukkan 13.30 á fimmtudaginn en hægt er að fylgjast með leikjum mótsins í opinni útsendingu ehftv.com.

Eftir góða byrjun í morgun þá lenti íslenska liðið í kröppum dansi lengst af í fyrri hálfleik og var mest fjórum mörkum undir hvað eftir annað. Liðinu tókst hinsvegar að snúa við blaðinu á lokakaflanum og skora sex mörk í röð og breyta stöðunni úr 13:9, Finnum í vil, í 15:13. Á þeim kafla skoraði Bríet Ómarsdóttir þrjú mörk af línunni. Finnska liðið jafnaði metin í 15:15, en tvö síðustu mörk hálfleiksins voru íslensk og tveggja marka forskot staðreynd þegar fyrri hálfleikur var að baki.

Anna Marý Jónsdóttir, Sara Katrín Gunnasdóttir, Katrín Helga Sigurbergsdóttir, Júlía Sóley Björnsdóttir og fleiri fagna þegar flautað var til leiksloka í Skopje. Mynd/EHF


Ísland náði mest sex marka forskoti í upphafi síðari hálfleiks, 22:16, áður en það finnska tók á sprett og minnkaði muninn í þrjú mörk, 22:19. Aftur sleit íslenska liðið sig frá og náði sex marka forskoti, 27:21. Þá kom nærri tíu mínútna slæmur kafli hjá íslenska liðinu og Finnar minnkuðu forskotið í eitt mark í tvígang, 27:26 og 28:27. Fyrrgreind Bríet hjó á hnútinn og skoraði 28. markið þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka.

Rakel Sara Elvarsdóttir skoraði 10 mörk og var valin maður leiksins. Mynd/EHF


Rakel Sara Elvarsdóttir innsiglaði sigurinn, 30:27, þegar 40 sekúndur voru til leiksloka með sínu tíunda marki í leiknum. Hún var í leikslok valin besti leikmaður íslenska liðsins.

Mörk Íslands: Rakel Sara Elvarsdóttir 10, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 7/4, Bríet Ómarsdóttir 5, Sara Katrín Gunnarsdóttir 3, Katrín Tinna Jensdóttir 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 1, Ída Margrét Stefánsdóttir 1, Emilía Ósk Steinarsdóttir 1.
Varin skot: Ólöf Marín Bjarnadóttir 10, Ingibjörg Gróa Guðmundsdóttir 1.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -