- Auglýsing -
- Auglýsing -

Barcelona er besta lið heims – 60 leikir án taps á tímabilinu

Barcelona vann Meistaradeild Evrópu á dögunum og er eitt þeirra liða sem á víst sæti í Meistaradeildinni a næsta keppnistímabili. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Lið Barcelona sýndi allar sínar bestu hliðar þegar það vann dönsku meistarana Aalborg Håndbold, 36:23, í úrslitaleik Meistaradeildar karla í handknattleik í Lanxess-Arena í Köln. Leikmenn Barcelona léku bókstaflega við hvern sinn fingur svo varla hefur sést annað eins. Barcelona hefur þar með unnið Meistaradeild Evrópu og Evrópukeppni meistaraliða, forvera Meistaradeildarinnar, í tíu skipti, oftar en nokkurt annað félag.


Þetta var sextugasti leikur Barcelona á þessari leiktíð og hefur liðið unnið þá alla, árangur sem seint verður jafnaður.


Barcelona vann alla 20 leiki sína í Meistaradeildinni á leiktíðinni sem er hreint lygilegur árangur.

Xavier Pascual fagnar eftir sigurinn í Meistaradeild Evrópu í dag. Hann kveður félagið í sumar eftir einstakan feril sem þjálfari en Barcelona hefur þrisvar unnið Meistaradeild Evrópu undir hans stjórn. Mynd/EPA


Aron Pálmarsson var í leikmannahópi Barcelona í dag en kom ekkert að öðru leyti við sögu. Hann vann nú Meistaradeildina í þriðja sinn á ferlinum en níu ár eru liðin síðan hann var síðast í sigurliði í keppninni.

Gonzalo Péres de Vargas, markvörður Barcelona, var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitahelgarinnar en hann lék afar vel bæði í dag og í undanúrslitaleiknum við Nantes í gær.


Barcelona tók völdin í leiknum í dag fljótlega. Eftir að Aalborg komst yfir, 5:3, skoraði Barcelona fimm mörk í röð. Segja má að þá hafi leikmenn liðsins sett leikmönnum Aalborg stólinn fyrir dyrnar og tekið öll völd á leikvellinum. Staðan í hálfleik var 16:11. Eftir tíu mínútna leik í þeim síðari var munurinn orðinn níu mörk, 24:15.

Arnór Atlason, aðstoðarþjálfari Aalborg og leikmenn Aalborg og aðalþjálfari Stefan Madsen, geta borið höfuðið hátt eftir frábært keppnistímabil í Meistaradeildinni þrátt fyrir tapið í dag. Liðið hefur komið flestum á óvart með frábærri frammistöðu síðast í gær með því að leggja PSG í undanúrslitum. Hinsvegar er ekki nokkurt lið sem stendur Barcelona á sporði um þessar mundir. Handboltinn sem liðið leikur er hreint stórkostlegur.

Arnór Atlason lengst t.v. í efri röð ásamt félögum sínum í Aalborg Håndbold sem hafa komið skemmtilega á óvart í Meistaradeild Evrópu á tímabilinu og uppskera silfurverðlaun. Mynd/EPA


Mörk Barcelona: Aleix Gómez 9, Timothey N’Guessan 6, Luka Cindric 5, Blaz Janc 3, Ludovic Fabregas 3, Gonzalo Péres de Vargas 3, Domen Makuc 2, Dika mem 2, Casper Motensen 1, Luís Frade 1.

Mörk Aalborg: Lukas Sandell 8, Nikolaj Læsö 4, Sebastian Barthold 3, Magnus Saugstrup 2, Feliz Claar 2, Jonas Samuelsson 2, Buster Juul 1, Benjamin Jakobsen 1.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -