- Auglýsing -
- Auglýsing -

Belgar sanna að frasinn er ekki alveg út í bláinn

Belgíska landsliðið í karlaflokki tekur þátt í HM 2023. Mynd/Handknattleikssamband Belgíu
- Auglýsing -

Belgíska landsliðið í handknattleik karla tekur þátt í heimsmeistaramóti í fyrsta sinn á næsta ári eftir að hafa fremur óvænt lagt Slóvaka samanlagt í tveimur leikjum á síðustu dögum, 57:54. Sigurinn á heimavelli í síðari viðureigninni á laugardaginn var sannfærandi, 31:26.

Úrslitin undirstrika að frasinn um að ekki séu til auðveldir leikir í evrópskum handknattleik er ekki alveg út í bláinn.

Belgískir handknattleiksmenn munu þar með væntanlega verða spenntir þegar dregið verður í riðla fyrir heimsmeistaramótið í Katowice í Póllandi laugardaginn 2. júlí.

Áttu að mæta Rússum

Sigurliðið úr viðureign Belga og Slóvaka átti að mæta Rússum í seinni umferð umspilsins í næsta mánuði. Til þess kemur ekki eftir að Rússum var vísað úr keppni eftir innrásina í Úkraínu í síðasta mánuði. Hið konunglega handknattleikssamband Belgíu, eða svo nefnist það, getur farið að skipuleggja þátttöku á HM.

Belgar hafa ekki verið hátt skrifaðir í evrópskum handknattleik. Þeir hafa hinsvegar jafnt og þétt sótt í sig veðrið á síðustu árum þótt íþróttin sé e.t.v. ekki á forsíðum blaðanna í Belgíu eða ríði húsum í dagskrá sjónvarpsstöðva landsins.

Hverjir þekkja Glorieux og Lettens?

Almennir áhugamenn handknattleik þylja ekki reiprennandi upp nöfn leikmanna belgíska landsliðsins. Vafalaust eru ekki margir sem þekkja til Jef Lettens markvarðar sem fór á kostum í heimaleiknum við Slóvaka á laugardaginn eða Yannick Glorieux sem varð markahæstur Belga í umræddum leik. Glorieux er leikmaður belgíska liðsins Sezoenszs Achilles Bocholt sem vart er með þekktustu handknattleiksliðum Evrópu.


Þessu lítt þekkta landsliði tókst engu að síður að vinna Slóvaka sem voru gestgjafar Evrópumótsins í janúar og eiga sér nokkuð ríka hefð fyrir handknattleik.

Velgdu Frökkum undir uggum

Belgar hafa á síðustu árum stundum náð athyglisverðum úrslitum eins og t.d. í undankeppni EM 2018 þegar Frakkar, með sitt sterkasta lið sluppu með skrekkinn og eins marks sigur, 39:38. Belgar léku sjö á sex sem kallað er og Frakkar vissu ekki sitt rjúkandi ráð um tíma. Þrátt fyrir framfarir hafa Belgar ekki verið ofarlega í riðlum undankeppni EM en náð einstaka úrslitum inni á milli og saman við.

Hættu vegna covid

Vegna covid þá drógu Belgar lið sitt út úr undankeppni EM2022. Þeir voru því í forkeppni fyrir undankeppni HM í janúar á sama tíma og Slóvakar voru gestgjafar EM ásamt Ungverjum.

Gerðu jafntefli við Kósovó

Í forkeppni í janúar komst belgíska landsliðið með naumindum áfram úr sínum riðli ásamt Grikkjum eftir að hafa m.a. tapað leik fyrir Tyrkjum og gert jafntefli við Kósovó á útivelli. Belgar náðu öðru sæti í undanriðlinum og fóru áfram úr honum ásamt Grikkjum og nokkrum öðrum landsliðum úr öðrum riðlum forkeppninnar. Belgar voru þar af leiðandi í neðri styrkleikaflokki þegar dregið var til 1. umferðar undankeppni HM í lok janúar.

Einn í 3. deild í Þýskalandi

Líkurnar voru ekki með belgíska landsliðinu í leikjunum við Slóvaka. Eins og áður segir þá eru leikmennirnir ekki heldur þekktir né eru á mála hjá stórliðum, alltént ekki þeir sem voru valdir til þess að taka þátt í leikjunum. Einn leikur með þýska 3. deildarliðinu Krefeld, fimm eru á samningi hjá liðum í 1. og 2. deild í Frakklandi, tveir leika í Hollandi en aðrir í heimalandinu. Fyrrgreindur Lettens markvörður er væntanlega hjá þekktasta liðinu en hann er samningsbundinn Toulouse.

Franskur þjálfari

Landsliðsþjálfari Belga er Yerime Sylla. Hann er 52 ára gamall og er af frönsku og senegölsku bergi brotinn. Sylla tók við starfinu í október á síðasta ári og þá í þriðja sinn. Hann var einnig þjálfari landsliðsins 2011 til 2014 og aftur 2015 til 2018.

Íslandstenging við þjálfarann

Sylla hefur á síðustu 15 árum m.a. verið aðstoðarþjálfari Dunkerque í Frakklandi og verið þjálfari hjá Cesson Rennes einnig í Frakklandi. M.a. léku frændurnir Geir Guðmundsson og Guðmundur Hólmar Helgason undir stjórn Sylla hjá Cesseon Rennes og Ragnar Óskarsson var hans samstarfsmaður um nokkurt skeið auk þess sem þeir voru samherjar hjá Dunkerque í byrjun aldarinnar.

Frá Lúxemborg til Frakklands

Sylla, sem nú þjálfar Bascharage í Lúxemborg, tekur við þjálfun Nancy í Frakklandi í sumar en mun samhliða því áfram stýra belgíska landsliðinu og standa í stafni þegar það tekur þátt í fyrsta stórmótinu í janúar nk.

Hér fyrir neðan eru valdir kaflar úr fyrri leik Belga og Slóvaka sem fram fór í Slóvakíu á fimmtudagskvöld og lauk með sigri Slóvaka, 28:26. Belgar eru í gulum treyjum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -