Benedikt Gunnar skoraði sigurmarkið gegn Noregi

U20 ára landslið Íslands lagði Dani í lokaumferð Opna Skandinavíumótsins í morgun. Mynd/HSÍ

Benedikt Gunnar Óskarsson innsiglaði sigur íslenska U20 ára landsliðsins á því norska í kvöld á Opna Skandinavíumótinu í Hamri í Noregi, 25:24. Valsarinn vaski skoraði sigurmarkið úr vítakasti þegar leiktíminn var úti. Anton Már Rúnarsson vann vítakastið af harðfylgi á elleftu stundu, rétt áður en leiktíminn var úti.


Anton Már jafnaði metin, 24:24, þegar 59 sekúndur voru til leiksloka. Eins og í gær gegn Svíum þá voru íslensku strákarnir öflugir á lokasprettinum í annars jöfnum leik þar sem jafnt á öllum tölum eftir að norska landsliðið var tveimur mörkum yfir, 7:5, eftir liðlega 17 mínútur.


Íslensku piltarnir voru marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 13:12. Þeir hafa þrjú stig eftir tvo fyrstu leikina í mótinu. Norðmenn eru hinsvegar tómhentir eftir tvær viðureignir.


Ísland mætir Danmörku í lokaumferð mótsins í fyrramálið. Danir unnu Norðmenn með 11 marka mun í gær og mæta Svíum í kvöld.


Mörk Íslands: Símon Michael Guðjónsson 7, Andri Már Rúnarsson 4, Andri Finnsson 3, Einar Bragi Aðalsteinsson 3, Benedikt Gunnar Óskarsson 2/2, Kristófer Máni Jónasson 2 , Arnór Viðarsson 1, Guðmundur Bragi Ástþórsson 1, Ísak Gústafsson 1, Jóhannes Berg Andrason 1.

Varin skot: Adam Thorstensen 5, 25% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 5, 42%.


Þátttaka í mótinu er liður í undirbúningi íslenska landsliðsins fyrir Evrópumótið sem fram fer í Porto 7. til 17. ágúst.

Uppfært: Sænska landsliðið vann það danska í síðari leik dagsins á Opna Skandinavíumótinu, 31:28. Svíar og Íslendingar hafa þar með þrjú stig hvorir í efsta sæti. Danir hafa tvö stig og Norðmenn reka lestina án stiga.

Viðureign Íslands og Danmerkur í lokumferð mótsins hefst klukkan átta í fyrramálið.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -