- Auglýsing -
- Auglýsing -

Berge kveður norska landsliðið

Christian Berge hætti þjálfun norska landsliðsins til þess að byggja upp Kolstad. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Christian Berge hefur ákveðið að hætta þjálfun norska karlalandsliðsins í handknattleik. Frá þessu greinir norska handknattleikssambandið í fréttatilkynningu í morgun. Talið er sennilegt að Berge taki við þjálfun norska liðsins Kolstad en forráðamenn liðsins hafa uppi háleit áform um að lið félagsins verði eitt fremsta félagslið Evrópu innan fárra ára.


Berge hefur verið orðaður við starfið hjá Kolstad síðan í haust. Hann hafði farið þess á leit við norska handknattleikssambandið að fá að stýra liði Kolstad samhliða starfi landsliðsþjálfara. Það kom ekki til greina af hálfu stjórnenda sambandsins. Þar með var ljóst að Berge væri nauðugur sá kostur að gera upp á milli starfsins hjá Kolstad og norska landsliðinu. Eftir Evrópumótið í síðasta mánuði var greint frá að stjórnendur norska handknattleikssambandsins hafi gefið Berge frest til 18. febrúar að gera upp hug sinn.


Samningur norska handknattleikssambandsins við Berge átti að renna út árið 2025. Hann hefur verið landsliðsþjálfari frá 2014. Undir hans stjórn hefur landsliðið skipað sér í röð allra bestu landsliða heims. M.a. lék norska landsliðið til úrslita á HM 2017 og 2019 og hlaut silfurverðlaun auk þess sem liðið vann bronsverðlaun á EM 2020.


Síðustu landsleikir Noregs undir stjórn Berge verða á alþjóðlegu móti í Danmörku í mars.


Norska landsliðið hefur þegar tryggt sér sæti á HM og tekur þar með ekki þátt í umspilsleikjum um miðjan apríl. Sigur Norðmanna á Íslendingum í leiknum um 5. sætið á EM í síðasta mánuði tryggði þeim farseðilinn á HM í janúar á næsta ári.


Stjórnendur norska handknattleikssambandsins munu þegar vera byrjaðir að horfa í kringum sig eftir eftirmanni Berge. Yfirgnæfandi líkur eru taldar á að Norðmaður verði fyrir valinu.

Tveir íslenskir handknattleiksmenn hafa þegar samið við Kolstad, Janus Daði Smárson og Sigvaldi Björn Guðjónsson. Einnig hafa forráðamenn félagsins samið við hóp norskra leikmanna sem leika utan heimalandsins, þar á meðal stórstjörnuna Sander Sagosen.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -