- Auglýsing -
- Auglýsing -

Bernskudraumurinn er að rætast

Örn Vésteinsson Östenberg annar frá hægri eftir að hann skrifað undir samning við TV Emsdetten á dögunum. Mynd/TV Emsdetten
- Auglýsing -

„Bernskudraumurinn um að verða atvinnumaður í handbolta í Þýskalandi rættist með samningnum við Emsdetten. Það er frábært,“ sagði handknattleiksmaðurinn Örn Vésteinsson Östenberg þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans á dögunum eftir að Örn skrifaði undir eins og hálfs árs samning við þýsku 2. deildarliðið TV Emsdetten.


Skyndilega koma Arnar til félagsins á miðju keppnistímabili skýrist af því að norska úrvalsdeildarliðið Tønsberg Nøtterøy, sem hann lék með, er nánast gjaldþrota. Leikmönnum liðsins sem vildu og gátu máttu róa á önnur mið. Örn greip tækifærið og gat valið úr liðum, jafnt í Noregi sem í Þýskalandi.

Örn, sem er 23 ára gamall, er ekki ýkja þekktur þrátt fyrir að hafa leikið með yngri landsliðum Íslands og verið um skeið með liðum Selfoss og Gróttu. Örn fæddist í Svíþjóð og ólst upp í Växjö í Smálöndum. Faðir hans er Vésteinn Hafsteinsson frá Selfossi, Íslandsmethafi í kringukasti og þjálfari fremstu kringlukastara heims undanfarin hálfan annan áratug. Móðirin, Anna Östenberg, var þekkt frjálsíþróttakona í Svíþjóð landsmetshafi í kringukasti um árabil. Örn er elstur af þremur börnum Vésteins og Önnu.

Æfði lengi kringulukast

„Ég byrjaði sem stráklingur að æfa handbolta í Växjö í Svíþjóð þar sem fjölskylda mín bjó og býr enn. Växjö er ekki þekktur fyrir handbolta. Þar er aðallega lagt stund á íshokkí og fótbolta. Ég var líka lengi í frjálsíþróttum og æfði meðal annars kringlukast þangað til ég var að verða 19 ára og var bara nokkuð góður. Síðan kom að því að ég valdi handboltann umfram kringlukastið vegna þess að mér þótti handboltinn skemmtilegri,“ sagði Örn og bætir við að foreldrar hans standi þétt við bakið á honum á handboltavellinum.

Var í akademíu í Kristianstad

Eftir að hafa æft með félagsliði í Växjö fram til 16 ára aldurs söðlaði Örn um og gekk til liðs við Kristianstad. „Ég var í akademíu hjá Kristianstad í tvö ár sem var afar lærdómsríkt. Á þessum tíma valdi Einar Guðmundsson mig í U17 ára landsliðið og eftir það tók ég þátt í nokkrum stórmótum með U18, U19 og U21 árs landsliðum Íslands.“


„Eftir að ég lauk menntaskólanámi í Kristianstad flutti ég til Íslands og gekk til liðs við Selfoss og var með liðinu í fimm mánuði. Það skref reyndist erfitt. Það var meira en að segja það að flytja á milli landa svona ungur. Eftir veruna hjá Selfoss var ég í stuttan tíma til Gróttu áður en ég flutti til baka til Svíþjóðar og gekk til liðs við þriðjudeildar lið. Hjá því fékk ég að spila 60 mínútur í leik sem reyndist mér afar dýrmætt. Veturinn á eftir lék ég í annarri deild í Svíþjóð,“ sagði Örn sem tók sig upp sumarið 2019 og gekk til liðs við Bodö í Noregi hvar hann var eitt keppnistímabil í næst efstu deild.

Frá Bodö til Tønsberg

Vorið 2020 komst Örn í samband við hinn þekkta þjálfara, Robert Hedin, sem þjálfar Tønsberg Nøtterøy. „Hann bauð mér og vini mínum að koma til félagsins. Fyrra árið vorum við í næst efstu deild en fórum upp í úrvalsdeildina á síðasta vori.

Örn Vésteinsson Östenberg t.v. ásamt Antoni Rúnarssyni, leikmanni TV Emsdetten, og Marco Stange, þýskum umboðsmanni Arnar. Mynd/Aðsend

Heillskref að fara til Noregs

„Þegar ég lít til baka þá var það heillaskref fyrir mig sem handboltamann að fara yfir til Noregs. Ég bætti mig mikið. Mér gekk vel bæði tímabilin hjá Tønsberg Nøtterøy en því miður er félagið í miklum fjárhagserfiðleikum,“ sagði Örn sem á inni laun hjá Tønsberg Nøtterøy.

Fjögur félög sýndu áhuga

Þegar ljóst að var að allt væri að rakna upp hjá Tønsberg Nøtterøy sýndu norsk lið Erni áhuga en einnig þýsk lið. Má þar nefna Ferndorf, Eldbflorenz, EHV Aue og TV Emsdetten sem öll leika í næst efstu deild.

Stjórnendur Tønsberg Nøtterøy þurfa að stoppa upp í fjárhagsgat sem nemur 2,5 milljónum norskra króna, jafnvirði um 35 milljóna íslenskra, til að komast á lyngan sjó.

Kunni strax vel við sig

„Ég ákvað að prófa fyrst að mæta á æfingu hjá TV Emsdetten og líkaði strax vel. Það er mikið tempó á æfingum, varnarleikurinn hentar mér vel auk þess sem flottur þjálfari er með liðið. Ekki spillti það fyrir að Anton Rúnarsson leikur með Emsdetten. Hann hefur tekið mér opnum örmum og greitt götu mína. Upp úr þessu gerðust hlutirnar hratt. Ég mætti á mína fyrstu æfingu mánudaginn 7. febrúar og skrifaði undir samning þremur dögum síðar,“ sagði Örn sem samdi við Emsdetten til eins og hálfs árs, fram á mitt árið 2023.

Rétta skrefið

„Ég er sannfærður um að ég hef tekið rétt skref með koma í þýsku aðra deildina. Handboltinn sem leikinn er í deildinni hentar mér mjög vel. Það er mikið hraði í leiknum og varnarleikurinn er afar agressívur. Ég fann fljótt að þetta hentaði mér afar vel. Ég leik sem skytta vinstra megin og fæ mikla aðstoð frá Antoni sem er duglegur að opna fyrir mig.


Ég hlakka til að halda áfram hér hjá Emsdetten og veit að ég á eftir að taka meiri framförum,“ sagði Örn Vésteinsson Östeberg í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -