- Auglýsing -
- Auglýsing -

Bjarni og félagar kræktu í annað sætið á lokasprettinum

Bjarni Ófeigur Valdimarsson leikmaður Skövde t.v. Mynd/Aðsend
- Auglýsing -

Bjarni Ófeigur Valdimarsson og samherjar í IFK SKövde tryggðu sér annað sætið í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla í kvöld þegar síðasta umferðin fór fram. Þeir unnu Daníel Frey Andrésson og samherja í Guif, 32:29, í Eskilstuna. Á sama tíma tapaði Kristianstad, sem var í öðru sæti fyrir síðustu umferðina, fyrir deildarmeisturum Sävehof, 30:20, í Partille.


Skövde lauk þar með deildarkeppninni með 38 stig, einu fleira en Kristianstad. Sävehof varð deildarmeistari með 43 stig í 26 leikjum.


Bjarni Ófeigur tók ekki þátt í leiknum í kvöld. Hann er þriðji markahæsti leikmaður liðsins með 110 mörk á keppnistímabilinu en er sá markahæsti ef dregin eru frá vítaköst en hann hefur ekki verið í hlutverki vítaskyttu á tímabilinu.

Mæta Hammarby


Skövde leikur við Hammarby í fyrstu umferð úrslitakeppninnar sem hefst væntanlega ekki fyrr en eftir mánaðarmót. Hammarby hafnaði í sjöunda sæti deildarinnar eftir sigur á Lugi í uppgjöri liðanna í sjöunda og áttunda sæti, 22:21.


Daníel Freyr náði sér ekki á strik í síðasta leik sínum með Guif. Hann varði sex skot, þar af eitt vítakast, sem jafngildir 22% markvörslu.

Fer að pakka niður

Guif hafnaði í níunda sæti og eru leikmenn liðsins komnir í sumarfrí. Daníel Freyr getur því farið að pakka niður föggum sínum. Hann flytur til Jótlands í sumar og leikur með Lemvig næstu tvö ár.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -