- Auglýsing -
- Auglýsing -

Bjartsýni í upphafi viku – spurt er að leikslokum

Vonandi verður hægt að hefja æfingar af krafti á nýjan leik sem fyrst og blása til leiks á Íslandsmótinu í kjölfarið. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -
  • Nokkurrar bjartsýni gætir í upphafi viku um að létt verði á sóttvarnaraðgerðum sem verið hafa í gildi í um þrjár vikur. Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, sagði á Sprengisandi á Bylgjunni í gærmorgun binda vonir við að hægt verði að létta á reglum fyrir vikulokin. Þegar Þórólfur slær á nótur bjartsýninnar er vart ástæða til svartsýni.
  • Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra sagði fyrir helgina að það væri for­gangs­mál hjá stjórn­völd­um að koma íþrótta- og æsku­lýðsstarfi aft­ur af stað.
  • Það er lífsnauðsynlegt fyrir íþróttalíf í landinu að æfingar og keppni hefjist á ný með sem minnstum takmörkunum. Undanfarið ár hefur verið íþrótta- og æskulýðsstarfi mjög erfitt. Börn og unglingar hafa meira og minna verið heima og mánuðum saman nánast vart mátt sig hreyfa. Takturinn hefur riðlast hjá viðkvæmum hópum.
  • Mikil hætta er á að börn og unglingar flosni upp úr starfinu sem þeim er nauðsynlegt, jafnt andlega sem líkamlega. Íþróttahreyfingin verður að slá hressilega í klárana þegar starfið fer af stað á ný og þunginn getur aukist. Ekki dugir nokkurra vikna átak heldur þarf að byggja upp markvissa áætlun til langs tíma til að kom þessum hópi af stað aftur. Ég trúi því og treysti að Íþróttasamband Íslands hafi unnið að slíkri áætlun bak við tjöldin undanfarna mánuði í samvinnu við yfirvöld.
  • Um leið ljóst verður að opnað verður fyrir æfingar á nýjan leik, vonandi fyrir lok vikunnar, þarf handknattleiksfólk að koma sér saman um lyktir keppni Íslandsmótsins, jafnt hjá þeim eldri og yngri. Vaflaust mun ekki standa styr um hvernig afgreiða á yngri flokkana.
  • Eins og mál standa virðast margra hugmyndir vera á lofti varðandi meistaraflokkana, ekki síst hvernig ljúka skuli keppni í Olísdeild karla. Sitt sýnist hverjum. Sumir vilja klára mótin sem fyrst, aðrir teygja lopann langt fram á heyannir. Millivegurinn er ofarlega á baugi hjá nokkrum. Ekki má gleyma að spyrja íþróttafólkið sjálft um hvað gera skal og hafa í huga heilsu þess og velferð.
  • Víst er að framundan er mikil vinna hjá forystumönnum Handknattleikssambandsins við að greiða úr málum. Sennilega kemur það í þeirra hlut að höggva á hnútinn, ákveða niðurstöðuna. Við hana verða vafalaust ekki allir sáttir. „Því að allt orkar tvímælis þá er gert er,“ eins og segir í Njálu.

    Ívar Benediktsson, ivar@handbolti.is
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -