- Auglýsing -

Björgvin Páll með stórleik – Valsmenn upp í annað sæti

Valsmenn fá Aftureldingu í heimsókn. Mynd/HSÍ

Valur vann öruggan sigur á Aftureldingu í kvöld, 27:25, í lokaleik 9. umferðar Olísdeildar karla í handknattleik en leikið var í Origohöllinni. Afturelding skoraði þrjú síðustu mörk leiksins undir lokin eftir að tveimur Valsmönnum hafði verið vísað af leikvelli.


Valur er þar með einn í öðru sæti með 14 stig eftir níu leiki og er tveimur stigum og einum leik á eftir Haukum sem eru efstir. Afturelding er í sjötta sæti með 10 stig.


Að loknum fyrri hálfleik var Valur þremur mörkum yfir, 12:9, og liðið náði mest fimm til sex marka forystu í síðari hálfleik.


Valur var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda í kvöld. Vörn liðsins var góð og Björgvin Páll Gústavsson, markvörður, frábær. Hann var með 45% markvörslu þegar upp var staðið og var e.t.v. mesti munurinn á liðunum í kvöld.


Ekki bætti úr skák hjá Aftureldingu að Þrándur Gíslason Roth línumaður fékk rautt og blátt spjald eftir 14 mínútur. Voru Mosfellingar þar með án hefðbundins línumanns eftir það auk þess sem fjarvera Þrándar veikti einnig vörnina. Ljóst að Mosfellingar verða að fá línumann að láni á næstunni því Einar Ingi Hrafnsson er meiddur og leikur ekki með fyrr en á nýju ári. Þá má alveg reikna með að Þrándur fái leikbann.

Því miður var kveikjuþráður manna alltof stuttur á tíðum í leiknum og setti óþarflega mikill æsingur svip á leikinn. Engu var líkara en verið væri að leika upp á líf eða dauða. Virtust dómarar leiksins á stundum vera í þann mund að missa leikinn úr höndum sér.


Semsagt öruggur og sanngjarn Valssigur hvað sem öllu líður.


Mörk Vals: Finnur Ingi Stefánsson 5, Tumi Steinn Rúnarsson 5/1, Benedikt Gunnar Óskarsson 5/2, Arnór Snær Óskarsson 4, Vignir Stefánsson 3, Stiven Tobar Valencia 2, Einar Þorsteinn Ólafsson 2, Tjörvi Týr Gíslason 1.
Varin skot: Björgvin Páll 20, 44,4%.
Mörk Aftureldingar: Þorsteinn Leó Gunnarsson 8, Árni Bragi Eyjólfsson 6/1, Þrándur Gíslason Roth 3, Úlfar Páll Monsi Þórðarsn 3, Kristófer Máni Jónasson 2, Gunnar Kristinn Þórsson 1, Guðmundur Bragi Ástþórsson 1, Bergvin Þór Gíslason 1.
Varin skot: Andri Sigmarsson Scheving 9, 29% – Brynjar Vignir Sigurjónsso 2, 28,6%.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -