Bjuggu sig undir stórleikinn með sykurpönnukökum hjá Kára

Kári Kristján Kristjánsson og félagar hristu hópinn saman í dag. Mynd/J.L.Long

Leikmenn ÍBV bjuggu sig undir stórleikinn við Val á morgun m.a. með því að koma saman heima hjá Kára Kristjáni Kristjánssyni í dag og snæða ylvolgar pönnukökur með sykri, eftir því sem kemur fram á vef Eyjafrétta í kvöld.


ÍBV tekur á móti Val á morgun í fjórða úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla í handknattleik. Flautað verður til leiks í íþróttamiðstöðinni í Vestmanneyjum klukkan 16. Mikið verður um dýrðir eins og handbolti.is greindi frá fyrr í dag. Eyjamenn tjalda öllu til og Valsmenn efna til hópferðar til eyjunnar fögru grænu eins og skáldið sagði í söng sínum um árið.


„Við vorum bara að hrista liðið saman með smá leik og fjöri, svo gaf ég þeim ylvolgar pönnukökur með sykri, þetta gerist ekki betra. Við erum bjartsýnir og það þýðir ekkert annað en að stefna á sigur í þessum leik,“ segir Kári Kristján laufléttur að vanda í samtali við Eyjafréttir.


Nú er að sjá hvort pönnukökurnar hans Kára Kristjáns geri gæfumuninn þegar á hólminn verður komið á morgun. Leikmenn ÍBV verða að vinna leikinn til þess að knýja fram oddaleik á heimavelli Vals á þriðjudagskvöld.


Vafalaust vilja Eyjamenn ekki sjá Valsmenn sigla með Íslandsbikarinn frá Eyjum annað kvöld enda vanari því að sjá bikarinn koma með Herjólfi inn um Eyjasund fremur en að hann sigli burt með skipinu.


- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -