- Auglýsing -
- Auglýsing -

Brot af minnistæðu EM-móti og gömlum minningum

Leikmenn íslenska landsliðsins þakka áhorfendum stuðninginn eftir sigurinn á Svartfellingum á miðvikudagskvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -
  • Minnistæðu Evrópumóti karla í handknattleik lauk í Búdapest í gær. Eins og áhugamenn vafalaust vita þá stóðu Svíar uppi sem Evrópumeistarar. Sænska landsliðið var nokkrum kvöldum áður fimm mínútum frá því að leika um fimmta sæti mótsins.
  • Íslenska landsliðið var e.t.v. fimm mínútum frá því að leika til undanúrslita á mótinu. Vandaðri leikur í fimm mínútur, jafnvel skemur, hefði dugað til að vinna Króata í stað þess að tapa með einu marki. Sigur á Króötum hefði dugað íslenska liðinu til þess að komast í undanúrslit. Vitanlega með því að vinna einnig Svartfellinga í lokaumferð millirðlakeppninnar eins og raun varð á.
  • Þar með hefði enginn þurft að leiða hugann að viðureign Frakka og Dana og niðurstöðu hennar sem varð mörgum til skapraunar. Það er aldrei gott að þurfa að treysta á aðra.

  • Sjötta sætið varð niðurstaðan, fjórði besti árangur Íslands á EM í sögunni.
    Ýmsir hafa borið árangurinn nú saman við árangurinn 2002 þegar íslenska landsliðið komst í undanúrslit. Kannski var frammistaðan betri núna en þá, kannski ekki.
  • Árið 2002 lék íslenska liðið frábærlega allt þar til kom að undanúrslitum. Þá var eldsneytið í tankinum nær uppurið. Fyrir vikið varð ekki lengra komist. Farið var að þynnast í 15 manna leikmannahópi sem hafði staðið í eldlínunni annan hvern dag frá upphafi.
  • Strangar reglur um skipti inn og út úr leikmannahópnum á EM 2002 komu niður á liðinu þegar allt kom til alls. Ekki bætti úr skák misskilningur á reglunum sem var þess valdandi að sextándi maðurinn gat lítið annað gert en að vera á meðal áhorfenda og horfa löngunarfullum augum inn á leikvöllinn.
  • Reyndar tók sextándi maðurinn sig til í hálfleik í einum leikjanna í Västerås og las tveimur íslenskum blaðamönnum pistilinn þar sem þeir sátu lúpulegir með pappakassa utan af borðplötu í fanginu og notuðu fyrir skrifborð í hrollkaldri íshokkíhöllinni. Minntu skammirnar á söguna af nemandanum sem kennarinn vísaði út úr kennslustund fyrir það eitt að hlægja á röngum stað við lestur á Brekkukotsannál.
  • Botninn datt alls ekki úr að þessu sinni hjá íslenska landsliðinu eins og 2002 og íslenskur blaðamaður var ekki skammaður fyrir að segja eitthvað sem þótti ekki við hæfi. Pappaspjöld utan af IKEA borðplötum eru heldur ekki lengur notuð sem skrifborð á Evrópumótum. Alls komu 24 leikmenn við sögu hver öðrum faglegri utan vallar sem innan. Enginn þeirra lét gremju yfir örlögum sínum bitna á sendiboðanum.
  • Íslenska landsliðið lék nú ekki síður í síðasta leiknum en í þeim fyrsta. Eftir hvert kórónuveirusmitið á fætur öðru fram eftir öllu móti hefði landsliðsþjálfarinn sennilega farið langt með að stilla upp sínu sterkasta liði í undanúrslitum á föstudaginn og enn öflugra liði í leiknum um verðlaun í gær. Af því varð ekki.

  • Kórónuveiran hafði áhrif á nær öll liðin á mótinu. Danir og Norðmenn sluppu einna best, þar á eftir sennilega Spánverjar og Frakkar. Svíar fengu að súpa seyðið af henni en náðu ferskum mönnum inn fyrir endasprettinn.
  • Mótið á eftir að verða minnstætt fyrir okkur Íslendinga fyrir tvennt. Annars vegar stórskemmtilegan leik íslenska landsliðisins á leikvellinum auk gleðinnar og samstöðunnar sem geislaði að leikmönnum, þjálfurum og aðstoðarmönnum. Hópurinn var sem ein heild. Innistæða var fyrir hendi í talinu um góðan anda og það að eitthvað lægi í loftinu. Árangurinn var og er mjög góður. Leikmenn, þjálfarar og aðstoðarmenn geta verið afar stoltir af honum.
  • Hinsvegar var það veiran sem setti strik í reikninginn eins og áður segir. Úr því komið var tókst að leysa afar vel úr þeim þrautum sem glíman við hana lagði fyrir þjálfara og leikmenn íslenska liðsins og sýndi a.m.k. okkur sem á horfðu að breiddin í leikmannahópnum er meiri en margan grunaði. Það er ekki ávísun á undanhald að treysta fleirum fyrir að axla ábyrgð. Framfarir hafa líka átt sér stað meðal íslenskra leikmanna á undanförnum árum og misserum, ekkert síður en hjá mörgum öðrum.
  • Næsta verkefni er umspilsleikir í apríl um sæti á heimsmeistaramótinu. Vonandi leiða úrslit þeirra íslenska landsliðið inn á veirualaust HM á næsta ári.

    Ívar Benediktsson, ivar@handbolti.is
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -