- Auglýsing -
- Auglýsing -

Byr í seglum frá fyrsta degi

HSÍ væntir þess að opnað verði fyrir æfingar í handknattleik meðal ungmenna og fullorðinna um miðja næstu viku. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -

Í dag eru fimm vikur síðan handbolti.is var opnaður. Óhætt er að segja að viðtökur hafi verið einstaklega góðar. Snemma í morgun fóru heimsóknir yfir 100 þúsund. Það er framar vonum þótt bjartsýni hafi fyrst og fremst verið veganesti okkar sem að útgáfunni stöndum.


Greinlegt er að þörf er á miðli eins og handbolta.is sem einbeitir sér að því að segja fregnir af handknattleik, utan lands sem innan. Ekki aðeins hafa lestrartölur og flettingar, sem hafa verið nærri þrjár á hverja heimsókn, sýnt þetta.


Fjöldi fólks hefur komið að máli við mig og þakkað fyrir að láta slag standa. Margir hafa sent tölvupóst og skilaboð með góðum óskum, kveðjum og hvatningu.


Ótaldir eru þeir sem boðið hafa fram aðstoð og/eða viljað greiða götu útgáfunnar á einhvern hátt. Heiðursfólk hefur sent myndir, gaukað að mér fréttamolum og öðru efni til birtingar. Handknattleiksfólk, þjálfarar, stjórnendur félaga og starfsmenn hafa tekið handbolta.is opnum örmum.


Handboltafélögin hafa verið dugleg að vera í sambandi við handbolta.is auk þess sem þau hafa góðfúslega heimilað notkun á efni af samfélagsmiðlasíðum sínum.

Ekki má gleyma þeim sem auglýsa á handbolta.is og þar með skotið stoðum undir reksturinn. Þótt ítrasta hófs hafi verið gætt, og verði gætt, við rekstur handbolta.is, þá gengur þessi útgáfa ekki til lengri tíma án tekna. Vil ég nota tækifærið til þess að þakka þeim sem séð hafa hag sinn í að auglýsa á handbolti.is og styðja þannig við bakið á útgáfunni. Er það einlæg von að þeim hafi verið endurgoldið.

Þá er ótaldir allir þeir sem hafa sent ábendingar og leiðréttingar af ýmsu tagi. Þær eru svo sannarlega eins vel þegnar og annað.


Nokkur hópur einstaklinga hefur óskað eftir að styrkja handbolta.is með mánaðarlegum framlögum. Þökkum við kærlega fyrir hlýhug í þeim efnum. Frá upphafi stóð til að einstaklingar ættu þess kost að styðja við bakið á útgáfu handbolta.is með svipuðum hætti og nokkrir íslenskir fjölmiðar hafa boðið lesendum sínum upp á. Undirbúningsferlið hefur hinsvegar tekið lengri tíma en nokkurn óraði fyrir. Enn sér ekki fyrir endan á ferlinu.


Frá fyrsta útgáfudegi, 3. september, hafa allir lagst á árar með okkur hjónaleysunum sem stöndum að útgáfunni. Það hefur svo sannarlega hvatt okkur til dáða og verður leiðarljós fyrir framhaldið.


Við erum rétt að byrja. Það er engan bilbug á okkur að finna þótt kórónuveiran setji um þessar mundir talsvert strik í reikninginn hjá handknattleiksfólki hér á landi. Bjartsýni verður annað leiðarljós við útgáfuna.


Handbolti.is leysti landfestar fyrir fimm vikum. Viðtökurnar hafa svo sannarlega veitt ríkulegan byr í seglin sem verður nýttur eins og kostur er.

Ívar Benediktsson, ivar@handbolti.is

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -