- Auglýsing -
- Auglýsing -

Byrjaði á HM í Afríku og enda kannski í Afríku

Alexander Petersson hefur ákveðið að láta gott heita sem atvinnumaður í handknattleik. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Það fylgir því nokkur óvissa og kannski svolítið ævintýri að taka þátt í HM við þessar aðstæður sem ríkja í heiminum. Ég held að þetta verði skemmtilegt. Ævintýri út í óvissuna,“ sagði Alexander Petersson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is á blaðamannfundi íslenska landsliðsins fyrir æfingu liðsins í Víkinni í morgun.


Alexander kom inn í hópinn fyrir EM fyrir ári síðan eftir fjögurra ára hlé frá landsliðinu. Hann sagði eftirvæntingu ríkja hjá sér fyrir að taka þátt. Fimmtán eru liðin síðan Alexander tók þátt í sínu fyrsta stórmóti með landsliðinu á HM í Túnis fyrir 15 árum. „Ég byrjaði á HM í Túnis í Afríku og kannski enda ég landsliðsferilinn í Afríku. Hver veit? Það er ákveðin áskorun að taka þátt eins og staðan er í heiminum.


Við sem lið ætlum að fara saman og gera það besta sem við getum. Vonandi smitast enginn af kórónuveirunni, hvorki fyrir HM né á meðan á mótinu stendur. Þá verður allt í lagi,“ sagði Alexander.

Breyttar aðstæður

Talsverð keyrsla verður á landsliðinu næstu daga. Liðið fer út til Portúgal í fyrramálið, leikur þar á miðvikudaginn, kemur heim aftur, æfir og leikur annan leik við Portúgal í undankeppni EM eftir viku og heldur síðan til Egyptalands á annan mánudag. „Þetta er allt mjög nýtt og mikil keyrsla en það er líka áhugavert að gera eitthvað í fyrsta sinn. Þetta verður erfitt en það verður eftirminnilegt að hafa tekið þátt í þessu við sérstakar aðstæður. Segja má að við séum að gera eitthvað sem ekki hefur verið gert áður og það er bara gaman, að mínu mati. Við munu gera það besta sem völ er á í stöðunni.“

Vil hjálpa strákunum

„Mér líður vel og er í góðu formi. Þar af leiðandi hlakka ég fyrst og fremst til þess að keppa með strákunum og taka þátt í þessu öllum saman með þeim. Ég ætla að gera allt sem ég get til þess að aðstoða liðið utan vallar sem innan. Leggja mig allan fram og hjálpa strákunum eins mikið og ég get. Ég verð ekkert yngri en hef kannski orðið klókari með árunum,“ sagði Alexander, sem stendur á fertugu, og hló við þegar hann var spurður hvort hann væri í nokkurskonar föðurhlutverki í landsliðinu.

Alexander Petersson á æfingu íslenska landsliðsins í Víkinni í morgun. Mynd/HSÍ


Alexander sagði að mikill söknuður væri að Aroni Pálmarssyni sem getur ekki tekið þátt í HM vegna meiðsla í hné. Menn verði að þétta raðirnar og vinna út frá stöðu sem væri uppi.


„Þetta er ekki gott fyrir okkur enda er Aron einn af bestu leikmönnum heims. En svona er staðan. Við sem eru í hópnum verðum bara að standa þéttar saman og aðstoða hvern annan eftir bestu getu,“ sagði Alexander Petersson sem er næst leikjahæsti leikmaður landsliðshópsins með 179 landsleiki að baki, þar af þátttöku í fjórum heimsmeistaramótum, 2005, 2007, 2011 og 2015.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -