Dagskráin: Fer Íslandsbikarinn á loft í Eyjum?

Vignir Stefánsson og Alexander Örn Júlíusson glaðbeittir með Íslandsbikarinn eftir sigur á Íslandsmótinu á síðasta ári. Mynd/Björgvin Franz

Íslandsbikarinn í handknattleik karla getur farið á loft í íþróttamiðstöðinni i Vestmannaeyjum á sjötta tímanum í kvöld þegar fjórðu viðureign ÍBV og Vals um Íslandsmeistaratitilinn verður lokið. Til þess að svo verði þarf Valur að vinna leikinn. Flautað verður til leiks klukkan 16.


Valsmenn standa betur að vígi. Þeir hafa unnið tvo leiki í einvígi liðanna en ÍBV einn. Valur þarf þar með einn sigur til viðbótar til þess að vinna Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð undir stjórn Snorra Steins Guðjónssonar þjálfara. Leikmenn ÍBV verða á hinn bóginn að vinna viðureignina á heimavelli sínum til þess að knýja fram oddaleik á mánudaginn á heimavelli Vals.


Ekki er annað vitað en Valur mæti með sína vöskustu sveit leikmanna til Vestmannaeyja. Sem fyrr leikur vafi á þátttöku Rúnars Kárasonar og Sigtryggs Daða Rúnarssonar í liði ÍBV eins og í síðustu leikjum.


Reiknað er með fjölda fólks á leikinn enda mun sala aðgöngumiða hafa verið lífleg en hún fer fram í gegnum smáforritið Stubbur. Valsmenn standa fyrir skipulagri hópferð með stuðningsmenn sína til Eyja. Í Vestmannaeyjum verður skemmtidagskrá fyrir utan íþróttamiðstöðina frá klukkan 14 þar sem m.a. verður boðið upp á lifandi tónlist, mat af grilli og hoppukastala fyrir börnin svo eitthvað sé nefnt.


Úrslit fyrri leikjanna í einvíginu:
Valur – ÍBV 35:25 (22:9).
ÍBV – Valur 33:31 (14:15).
Valur – ÍBV 31:30 (17:17).


Olísdeild karla, fjórði úrslitaleikur:
Vestmannaeyjar: ÍBV – Valur, kl. 16 – sýndur á Stöð2sport.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -