Dagskráin: Svara Eyjamenn fyrir sig eða kemst Valur í góða stöðu?

Mynd/Eyjólfur Garðarsson

Önnur úrslitaviðureign ÍBV og Vals um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla verður í Vestmannaeyjum í dag. Flautað verður til leiks í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum klukkan 16.


Reikna má með fjölmenni á leiknum og hörkustemningu. Eyjamenn láta sig aldrei vanta þegar úrslitaleikir eru annars vegar. Einnig má búast við að Valsmenn láti sitt ekki eftir liggja og streymi til Vestmannaeyja í veðurblíðunni sem ríkir á sunnan- og vestanverðu landinu.


Valsmenn unnu stórsigur í fyrstu viðureign liðanna í Origohöllinni á fimmtudagskvöldið, 35:25, í leik sem varð aldrei spennandi. Þrettán marka munur var að loknum fyrri hálfleik, 22:9.


Eyjamenn verða að vinna leikinn í dag til að forðast að vera í þröngri stöðu þegar mætt verður til þriðja leiksins í Origohöllinni á miðvikudagskvöld. Að sama skapi kemst Valur í góða stöðu í einvíginu með sigri í dag.


Ekki er annað vitað en að Valsmenn verði með sína vöskustu sveit í leiknum. Allir leikmenn klárir í slaginn. Meira vafamál ríkir um leikmannahóp ÍBV. Rúnar Kárason tognaði á kálfa snemma í leiknum á fimmtudaginn. Eins hefur Sigtryggur Daði Rúnarsson átt í meiðslum síðustu vikur og alls ekki náð að beita sér sem skyldi.


Olísdeild karla, annar úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn:
Vestamannaeyjar: ÍBV – Valur (0:1), kl. 16 – sýndur á Stöð2sport.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -