- Auglýsing -
- Auglýsing -

Danir fá einróma lof fyrir EM

Mynd/EPA
- Auglýsing -

Forsvarsmenn Handknattleikssambands Evrópu, EHF, eru í sjöunda himni yfir hvernig danska handknattleikssambandinu tókst til við skipulagningu og framkvæmd Evrópumeistaramóts kvenna sem lauk á síðasta sunnudag. Danska handknattleikssambandið tók við allri framkvæmd mótsins á innan við þremur vikum áður en flautað var til leiks eftir að Norðmenn gáfust upp vegna mjög strangra sóttvarnareglna í landinu. Til stóð að Danir og Norðmenn héldu mótið saman en stærri hluti þess átti að hvíla á herðum Norðmanna.

„Þrátt fyrir langan undirbúning hefði aldrei orðið af mótinu nema vegna baráttuvilja og reynslu vina okkar hjá danska handknattleikssambandinu. Óbilandi áhugi þeirra og sveiganleiki skein í gegn frá upphafi. Öll vandamál sem upp komu voru leyst og þess vegna var hægt að halda þetta einstaka mót með miklum sóma,” segir Michael Wiederer, forseti EHF.


Per Bertelsen, formaður danska handknattleikssambandsins, og hans fólk þykir nánast hafa unnið kraftaverk á stuttum tíma. Það er einróma álit þeirra að vel tókst til miðað við þær aðstæður sem ríkja í Evrópu um þessar mundir og ekki hafi verið hægt að standa betur að framkvæmd mótsins. Mjög strangar reglur giltu um sóttvarnarnir og m.a. bjuggu allir leikmenn, þjálfarar og 200 til 300 starfsmenn í einangrun um nokkurra vikna skeið. Hluti starfsmanna vann í sjálfboðaliðavinnu.

Eitt alvarlegt atvik kom upp í tengslum við mótið þegar þáverandi þjálfari rússneska landsliðsins fór á milli sóttvarnahólfa eftir einn kappleik liðsins. Hann slapp með skrekkinn í það skiptið en var sagt upp störfum af öðrum ástæðum áður en þátttöku Rússa á mótinu lauk.


Alls voru tekin ríflega 6.000 kórónuveirupróf á þátttakendum mótsins. Ekkert þeirra reyndist jákvætt. Sýnin þrjú sem voru jákvæð greindust við landamæraskimun.
Metáhorf var í sjónvarpi frá leikjum mótsins sem skal e.t.v. engan undra þar sem enginn leikjanna var opinn almennum áhorfendum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -