- Auglýsing -
- Auglýsing -

Díana Dögg stóð fyrir sínu

Díana Dögg Magnúsdóttir leikmaður BSV Sachsen Zwickau. Mynd/Sachsen Zwickau
- Auglýsing -

Díana Dögg Magnúsdóttir, landsliðskona í handknattleik, og samherjar hennar í BSV Sachsen Zwickau máttu þola sjö marka tap fyrir Blomberg-Lippe, 31:24, á heimavelli í dag í sjöttu umferð þýsku 1. deildarinnar í handknattleik. Þetta var síðasti heimaleikur BSV Sachsen Zwickau á árinu en framundan eru viðureignir á útivelli áður en hlé verður gert á deildarkeppninni eftir þrjár vikur vegna heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik sem hefst á Spáni eftir rétt rúman mánuð.


Díana Dögg lék af krafti þótt það hafi því miður ekki dugað til. Hún skoraði þrjú mörk, skapaði fjögur marktækifæri, af því voru tvær stoðsendingar auk þess sem hún vann eitt vítakast. Þess utan var hún föst fyrir í vörninni að vanda.


Blomberg-Lippe var átta mörkum yfir í hálfleik, 19:11.


„Blomberg lék flotta vörn gegn okkur auk þess sem markvarslan var frábær. Upp úr þessu fengu þær mörg hraðaupphlaup,“ sagði Díana Dögg við handbolta.is í kvöld.

„Markvarslan var engin hjá okkur og það var einn þeirra þátta sem gerði okkur erfitt fyrir,“ sagði Díana Dögg ennfremur en aðalmarkvörður BSV Sachsen Zwickau var veik og gat þar af leiðandi ekki leikið með. Þær sem tóku hennar sæti náðu sér ekki á strik.


BSV Sachsen Zwickau er í 12. sæti af 14 liðum deildarinnar með tvö stig eftir sex leiki. Stutt er í næstu lið fyrir ofan og má sem dæmi nefna að liðið í níunda sæti, Bensheim/Auerbach, er með fimm stig. Dortmund og Bietigheim er efst eins og stundum áður. Hvorugt hefur tapað leik enn sem komið er.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -