- Auglýsing -
- Auglýsing -

Díana Dögg var allt í öllu í öðrum sigurleiknum í röð

Eldhressir leikmenn BSV Sachsen Zwickau eftir sigurinn í Halle-Neustadt í kvöld. Díana Dögg er lengst t.v. númer átta. Mynd/BSV Sachsen Zwickau
- Auglýsing -

Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar hennar í BSV Sachsen Zwickau unnu annan leik sinn í röð í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld og hafa þar með mjakast frá neðstu liðunum tveimur. Zwickau vann Halle-Neustadt, 25:22, á útivelli eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 12:10.


Díana Dögg lék afar vel. Hún skoraði þrjú mörk, átti fjórar stoðsendingar skapaði tvö færi, stal boltanum í tvígang og átti auk þess tvö fráköst. Einnig var hún hörð í horn að taka í varnarleiknum og var fyrir vikið vísað einu sinni af leikvelli. Hún var afar traust í vörninni.


Til viðbótar var Díana Dögg klippt út úr sóknarleiknum síðasta stundarfjórðunginn en leikmönnum Halle-Neustadt varð ekki kápan úr því klæðinu.


BSV Sachsen Zwickau er í 12. sæti af 14 liðum deildarinnar með níu stig eftir 15 leiki. Liðið á 11 viðureignir eftir en dagskrá deildarinnar er talsvert gengin úr skorðum vegna kórónuveirufaraldursins. Bietigheim sem er efst hefur lokið 19 leikjum. Halle-Neustadliðið sem tapaði fyrir BSV Sachsen Zwickau í kvöld er í áttunda sæti með 13 stig eftir 15 leiki.

Samkvæmt leikjadagskrá leika Díana Dögg og félagar næst gegn Blomberg-Lippe 2. apríl.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -