Draumur forseta Alþjóða handknattleikssambandsins, Hassan Moustafa, um handbolta sem hægt er að nota án klísturs eða harpix rætist í sumar. Boltaframleiðandinn Molten og IHF segja að lausnin liggi á borðinu. Boltinn, sem er mikið undraverk, verður notaður í fyrsta sinn á heimsmeistaramóti kvenna, skipað leikmönnum 18 ára yngri, sem fram fer í Georgíu í sumar.
Hátt í áratugur er liðin síðan Moustafa lýsti yfir andúð sinni á klístrinu og sagðist vilja að þróaður yrði bolti sem hægt væri að nota án þessa efnis sem hefur verið mörgum til ama. Út með harpixið, sagði Moustafa en margir brostu í kampinn. Síðan hefur Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, lagt talsverða fjármuni í þróun boltans í samvinnu við Molten sem nú telur sig hafa leyst þrautina. Boltinn hefur fengið heitið Molten d60 PRO.
Yfirborð og efni boltans er slíkum ólíkindum að klístur mun heyra sögunni til í handknattleik innan skamms enda með öllu óþarft eftir að boltinn verður komin í almenna notkun.
Til stóð að þróun hins klístursfría bolta væri lokið 2020 og hann notaður á heimsmeistaramótum ungmenna þá um sumarið. Ekkert var af því vegna þess að mótin voru felld niður vegna kórónuveirunnar.
Klístrið eða harpixið er og hefur verið þyrnir í augum fleiri en Moustafa. Í gegnum tíðina hefur starfsfólk íþróttahúsa víða um heim haft af því ama og erfiði auk þjálfara og íþróttfólks annarra íþróttagreina. Einnig er ekki auðvelt að hreinsa efnið úr keppnisbúningum.