Ef stóru strákarnir skila sínu skal ég klukka nokkra bolta

Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Fram. Mynd/Ívar

„Heilt yfir var liðsheildin rosalega góð hjá okkur. Hún skilað stigunum tveimur,“ sagði hinn glaðværi markvörður Fram, Lárus Helgi Ólafsson, í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir fimm marka sigur Framara á Aftureldingu, 29:24, í Olísdeild karla en leikið var í íþróttahúsinu á Varmá.


„Við byrjuðum kannski svolítið hægt og vörnin var ekki alveg eins góð og hún gat verið. Það var langt á milli manna en jafnt og þétt þá batnaði leikur okkar enda er mönnum ljóst að leikurinn stendur yfir í 60 mínútur. Þegar litið er á heildina þá var ég mjög ánægður með leik okkar, jafnt í vörn sem sókn,“ sagði Lárus Helgi sem vildi ekki gera of mikið úr eigin frammistöðu en hann var með rétt tæplega 40% hlutfallsmarkvörslu að þessu sinni.


„Það hefur gengið ágætlega hjá mér en mín frammistaða byggist ekki síst á að þessi yndislegu stóru strákar sem standa í vörninni fyrir framan mig skili sínu dagsverki. Ég vona að þeir haldi sínu striki. Þá skal ég gera mitt besta til að klukka nokkra bolta,“ sagði Lárus Helgi Ólafsson markvörður Fram.


Samkvæmt tölfræði samantekt HBStatz þá hefur Lárus Helgi varið 13,5 skot að jafnaði í leik í Olísdeildinni á leiktíðinni sem gerir 37,2% hlutfallsmarkvörslu. Hann er í öðru sæti á lista á eftir Stefáni Huldari Stefánssyni hjá Gróttu.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -