- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ég á mér draum – kannski vantar fleiri fyrirmyndir?

Eva Dís Sigurðardóttir, markvörður Aftureldingar og Susan Ines Gamboa. Eva Dís var ekki með í leiknum í Eyjum í haust þegar Gamboa þurfti að bregða sér í markið. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Handknattleikskonan Susan Innes Gamboa og leikmaður Aftureldingar, greindi frá í fyrri hluta samtals sín við handbolta.is sem birtist í gær hvers vegna hún kom til Íslands frá Venesúela í ársbyjun 2019. Vonin um betra líf og að geta um leið leikið handknattleik. Gamboa segist hafa skotið rótum hér á landi á ekki lengri tíma. Framtíðin fyrir henni sé á Íslandi. Hún á sér einnig draum að fleiri stúlkur hér á landi leggi stund á handknattleik.


„Ég vonast til að þegar fram líða stundir geti ég lagt mitt af mörkum til að efla kvennahandbolta hér á landi, til dæmis sem leiðbeinandi. Við þurfum að vera duglegri við að hvetja stúlkur til þess að byrja að æfa þessa skemmtilegu íþrótt sem handknattleikurinn er. Hér á landi eru aðstæður frábærar til að æfa.

Vill sjá fleiri stelpur í handbolta

Íþróttin er vinsæl og árangur hefur verið góður. Þjálfarar og margir aðrir eru áhugasamir. Minn draumur er að fleiri stúlkur leggi stund á handbolta á Íslandi. Við þurfum á fleiri stelpum að halda til að auk breiddina. Hæfileikar og aðstæður eru fyrir hendi. Kannski vantar stúlkunum fleiri fyrirmyndir til að stíga skrefið og byrja að æfa?


Strákarnir eru duglegir að mæta á æfingar og prófa en svo sannarlega mega stelpurnar vera fleiri og vonandi verður hægt að laða fleiri að. Mig langar að leggja mitt að mörkum,“ segir Gamboa.

Árið 2014 var Gamboa komin vel af stað í handknattleik og eygði möguleika á að komast til Frakklands og leika þar með félagsliði. M.a. tók hún þátt í móti á Martinique en varð fyrir því óláni að krossband í hné slitnaði. Þar með var draumurinn úti. Við tók aðgerð á hné í Venesúela og endurhæfing í kjölfarið. Gamboa segir þetta hafa verið mikil vonbrigði enda hafi hún séð fram á að geta komist í burtu frá erfiðleikunum í heimalandinu. Draumurinn hafi orðið að engu á augabragði. Hinsvegar hafi erfiðleikarnir breytt henni, gert hana þakklátari fyrir það sem hún hefur og að geta þó enn leikið handknattleik. Og svo hafi paradísin Ísland komið upp í fangið á henni nokkrum árum síðar eins og hún greindi frá í fyrri hluta viðtalsins sem birtist í gær.
Susan Ines Gambo sækir að Elínu Rósu Magnúsdóttur í leik við Val í haust. Mynd/Raggi Óla

Fleira til lista lagt á vellinum

Gamboa leikur sem skytta en getur einnig verið á miðjunni. Henni er þó ýmislegt fleira til lista lagt á leikvellinum. Í viðureign Aftureldingar og ÍBV í Vestmannaeyjum í haust stóð hún í markinu allan síðari hálfleikinn. Aðalmarkvörðurinn var fjarverandi og hinn markvörðurinn náði sér ekki á strik. Gamboa hlær þegar leikurinn í Vestmannaeyjum er rifjaður upp.

Er ófeimin að prófa

„Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í handboltanum þá hafði ég gaman af því að spreyta mig sem línumaður eða markvörður svo ég þekki aðeins til þótt ég hafi ekki náð neinum árangri. Í leiknum í Eyjum þá reyndi ég að gera mitt besta. Einhver varð að reyna sig í þeirri stöðu sem við vorum í, í leiknum. Það er mikil áskorun að standa í marki í handbolta og gjörólíkt öðrum hlutverkum á leikvellinum en skemmtilegt. Ég er ófeimin við að prófa,“ segir Gamboa.

Susan Ines Gamboa á auðum sjó leik við Stjörnuna í haust. Mynd/Raggi Óla

Meiri hraði

Afturelding kom upp í Olísdeildina í vor eftir eins árs veru í Grill66-deildinni. Gamboa er á sínu þriðja keppnistímabili með Aftureldingu. Hún hefur þar af leiðandi reynsluna af því að leika í deildunum. Gamboa segir hraðann mikið meiri í Olísdeildinni en í Grill66-deildinni.

Tekur sinn tíma

Aftureldingarliðið hefur átt erfitt uppdráttar fram til þessa og er án stiga eftir sjö leiki. Gamboa segir framfaramerki vera á liðinu með hverjum leiknum og vonir standi til að fyrstu stigin vinnist fyrr en síðar.

„Við erum enn að spila okkur saman. Sex nýir leikmenn eru í liðinu og það tekur sinn tíma að stilla saman strengina. Allar erum við að róa í sömu átt og eflast sem liðsheild. Ég held að það sé ekki langt í fyrstu stigin. Við höfum verið nálægt þeim í síðustu leikjum.“

Fjölskyldan í Venesúela

Gamboa fæddist í borginni Valencia, vestur af höfuðborginni Karakas á norðurhluta Venesúela, nærri Karabíahafi. Valencia er þriðja fjölmennasta borg landsins með ríflega 800.000 íbúa.
Fjölskylda Gamboa býr enn í Venesúela, foreldrar og systkini þótt móðir hennar sé flutt frá Valencia.

Gamboa heldur sambandi við fjölskyldu sína eftir fremsta megni þótt hún hafi ekki sótt landið heim síðan hún kom til Íslands. Ástandið er slæmt í Venesúela og hafi verið um árabil. Því miður bendi fátt til betri tíðar þótt landið búi yfir miklum náttúruauðlindum s.s. olíu og gulli.
Mánaðarlaun fólks eru hverfandi lág og óðaverðbólga hafi ríkt árum saman. Gamboa reynir eftir megni að aðstoða sitt fólk í heimalandinu.

Leggur sitt af mörkum

„Ég hef vinnu hér á Íslandi og sendi þeim einhverja peninga með reglulegum hætti,“ segir hún og bætir við að stór hluti Venesúelabúa lifi við fátækramörk, innviðir landsins eru í lamasessi auk þess sem matur, lyf og aðrar nauðsynjar séu af afar skornum skammti. „Ég reyni að leggja mitt af mörkum til aðstoðar.“


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -