„Ég ætlaði ekki að klikka aftur“

Ragnheiður Júlíusdóttir að skora eitt fimm marka sinn í leiknum við Slóvena í kvöld. Mynd/Guðmundur Lúðvíksson

„Mér fannst varnarleikurinn og baráttan hjá okkur vera mjög flott allan leikinn en svo sannarlega hefði ég viljað vinna,“ sagði Ragnheiður Júlíusdóttir, markahæsti leikmaður Íslands í kvöld með fimm mörk í jafnteflisleik við Slóvena í síðari umspilsleiknum um farseðlinn á heimsmeistaramótið. Ragnheiður tryggði íslenska liðinu jafntefli þegar hún skoraði úr vítakasti á síðustu sekúndum leiktímans.


„Ég er fegin að hafa skorað úr vítakastinu í lokin eftir að hafa klikkað úr einu fyrr í leiknum,“ sagði Ragnheiður sem þakkaði Arnari Péturssyni, landsliðsþjálfara fyrir traustið að fá annað tækifæri til að taka vítakast eftir að hafa brugðist bogalistin um miðjan síðari hálfleik. „Ég ætlaði ekki að klikka aftur.“


Ragnheiður sagði að sóknarleikurinn hafi gengið betur í síðari hálfleik en þeim fyrri og liðið skoraði 13 mörk. Meiri hreyfing hafi verið á sóknarmönnum og þeir hafi ekki látið varnarmenn slóvenska liðsins koma eins fast í sig og áður. „Við vorum aðeins lengra frá þeim í kvöld. Okkur tókst að vinna betur út stöðunum sem komu upp. Línuspilið var betra en í fyrri leiknum. Anna Úrsúla [Guðmundsdóttir] kom með mikinn kraft inn í liðið, bæði í vörn og sókn. Það munaði mjög mikið um hana. Anna er rosalega flottur leikmaður og hreint með ólíkindum að hún skuli enn vera að spila á þessu getustigi. Hún hélt okkur á tánum og var mjög hvetjandi,“ sagði Ragnheiður.


Fyrir sína parta sagði Ragnheiður það vera mikilvægt að fá tækifæri að gera mistök þótt þau kunni að vera dýr. „Mér hefur oft þótt vera erfitt að koma inn í landsliðið og eiga að sanna mig á stuttum tíma í leikjum. Ég er mjög ánægð og þakklát fyrir að hafa fengið góðan tíma til að spila og þótt ég væri að klúðra þá fékk ég að halda áfram. Engu að síður er ég vonsvikin út í sjálfa mig fyrir að hafa ekki skorað í nokkrum skotum sem ég er vön að skora úr í Olísdeildinni. Ég var ekkert að svekkja mig á mistökunum til lengdar,“ sagði Ragnheiður Júlíusdóttir í samtali við handbolta.is í Schenkerhöllinni í kvöld eftir leikinn við Slóvena.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -