- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ég er sæll, glaður og þakklátur“

Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmaður Magdeburg. Mynd/SC Magdeburg
- Auglýsing -

„Marmiðið er að ná heilu keppnistímabili og njóta þess bara að spila handbolta eftir allt það sem á undan er gengið hjá mér,“ segir handknattleiksmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður Magdeburg í Þýskalandi þar sem hann hefur komið sér vel fyrir og leggur stund á fjarnám í verkfræði við HÍ samhliða handboltanum.


Gísli Þorgeir hefur verið einstaklega óheppinn á sínum stutta ferli. Hann er 21 árs og er að hefja sitt þriðja keppnistímabil í Þýskalandi. Tvö fyrstu tímabilin fóru meira og minna fyrir ofan garð og neðan vegna alvarlegra meiðsla. Fyrst í hægri öxlinni og síðan í þeirri vinstri en hann fór tvisar úr lið á þeirri vinstri með nokkurra mánaða millibili, í síðara skiptið í febrúar á þessu ári í leik með Magdeburg gegn Flensburg. Fyrra skiptið var í leik með Kiel gegn Rhein-Neckar Löwen í nóvember fyrir 11 mánuðum.


Upphafið á meiðslasögunni má rekja aftur til úrslitaeinvígis ÍBV og FH vorið 2018 þegar Gísli Þorgeir, þá leikmaður FH, hlaut afar slæma byltu og skaddaðist á hægri öxlinni. Nokkru áður hafði hann samið við stórlið Kiel um að gerast liðsmaður þess um sumarið.

Gekk ótrúlega vel


„Brynjólfur [Jónsson] og Örnólfur [Valdimarsson] læknar gerðu frábærlega við axlirnar og eiga heiður skilinn. Síðan var ég mikið hjá Ella sjúkraþjálfara [Elís Þór Rafnsson] í endurhæfingunni og við uppbygginguna á nýjan leik. Þeir eru frábærir.


Endurhæfingin eftir seinni aðgerðina á þessu ári gekk ótrúlega vel og ég finn ekki fyrir neinu núna. Ég hef reynt að líta á það jákvæða í öllu þessu ferli sem hefur tekið langan tíma,“ segir Gísli Þorgeir sem er kominn á fulla ferð með SC Magdeburg og hefur þegar tekið þátt í þremur fyrstu leikjum liðsins í deildarkeppninni. Félagið stóð þétt við bakið á honum frá fyrsta degi sem sýndi sig best í að það framlengdi samning hans umsvifalaust í kjölfar þess að hann fór öðru sinni úr axlarlið í febrúar.

Langt ferli


Byltan í Vestmannaeyjum vorið 2018 dró dilk á eftir sér og segja má að Gísli Þorgeir hafi ekki náð bata fyrr en nærri ári síðar. Fyrst eftir langt ferli endurhæfingar sem fór fyrir lítið. Hann var í kapphlaupi við tímann að geta verið með íslenska landsliðinu á HM 2019. Gísla tókst að vera með landsliðinu á mótinu en það kostaði fórnir.

Bennet Wiegert, þjálfari Magdeburg, gefur dómara góð ráð. Gísli Þorgeir Kristjánsson fylgist með. Mynd SC Mageburg


Eftir HM 2019 var ljóst að ekki yrði hjá því komist að Gísli Þorgeir legðist undir „hnífinn“ og færi í aðgerð á hægri öxlinni til að fá bót meina sinn sem hafði ekki orðið góð eftir óhappið í Eyjum. Við tók endurhæfingarferli mánuðum saman. Gísli var rétt byrjaður að spila með snemma síðasta vetrar þegar hann fékk högg á vinstri öxlina í leik með Kiel Löwen. Öxlin fór úr lið og við tók enn ein endhæfingin.

Þegar farið var að sjá fyrir endann á henni í upphafi þessa árs var Gísli Þorgeir leystur undan samningi hjá Kiel. Nokkrum dögum seinna samdi hann við SC Magdeburg. Ekki hafði Gísli Þorgeir leikið í margra mínútur með Magdeburg í febrúar þegar hann fékk þungt högg á vinstri öxlina sem gekk úr lið. Að þessu sinni var umsvifalaust farið í aðgerð. Og við tók enn eitt endurhæfingarferlið.

Mjög sérstök tilfinning


„Ég er bara orðinn heill heilsu sem mjög sérstök tilfinning eftir allt það sem á undan er gengið. Í fyrst sinn í nærri tvö og hálft ár er ekkert að plaga mig,“ sagði Gísli Þorgeir og heyra mátti að hann bankaði í borðið sem hann sat við hinum megin línunnar og sagði um leið: „sjö, níu, þrettán.“

Sjálfstraustið er komið aftur


„Ég er sæll, glaður og þakklátur fyrir að vera kominn á þann stað sem ég er á núna. Um leið er ég bjartsýnn og jákvæður á framhaldið. Sjálftraustið til að þora að gera það sem ég vil inni á vellinum er einnig komið. Þá er ekkert annað að gera en að láta hendur standa fram úr ermum.“

Vill skila sínu til liðsins


Gísli segist vera sáttur við spilamennsku sína og Magdeburg-liðsins fram til þessa þótt einn leikur af þremur hafi tapast. Hann hefur ekki skorað mikið en átt þátt í mörgum mörkum og unnið slatta af vítaköstum. „Aðalmálið í mínum huga núna er að skila mínu til liðsins eins vel og ég get þótt það skili sér ekki endilega í mörgum mörkum hverju sinni. Ég er mjög ánægður með þjálfarann, Bennet Wiegert, og hvernig hann vill spila handbolta. Ég er á hárréttum stað að eigin mati.“

Frábært að komast í rútínuna


Framundan er mikil leikjatörn hjá Magdeburg. Bæði í þýsku 1. deildinni og einnig er riðlakeppni Evrópudeildarinnar á næsta leiti. Gísli Þorgeir segist ekki kvarta þótt framundan sé mikið leikjaálag. „Ég mun ekki kvarta þótt leikjaálagið verði mikið eftir að hafa spilað fáa leiki á síðustu tveimur árum. Mér finnst bara frábært að vera kominn í leikjarútínuna aftur og ætla njóta þess í botn að spila handbolta,“ segir Gísli Þorgeir Kristjánsson og víst er að handknattleiksáhugafólk getur svo sannarlega tekið undir með þessum unga og dugmikla íþróttamanni sem hefur ekki látið hug falla þrátt fyrir þungar ágjafir og ákafan mótbyr.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -