- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ég lenti á vegg

Elvar Örn Jónsson í opnu færi á móti Nebojša Simić markverði Svartfellinga og samherja sínum hjá MT Melsungen í Þýskalandi. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Elvar Örn Jónsson einn leikmanna landsliðsins sem smitast hefur af covid á Evrópumótinu í handknattleik segist hafa fengið að kenna á viku einangrun þegar hann mætti loks inn á leikvöllinn aftur í gærdag.


„Ég lenti á vegg þegar inn í leikinn var komið og átti fyrir vikið erfitt uppdráttar. Vonandi er ég kominn í gegnum hann og verð betri á morgun gegn Noregi,“ sagði Elvar við handbolta.is í dag.

Hreyfingaleysið sagði til sín

„Maður fann fyrir að að hafa verið veikur og einnig því að hafa nær ekkert getað hreyft sig í heila viku,“ bætti Elvar við og sagðist helst hafa getað stundað ýmsar léttar æfingar í einverunni s.s. armbeyjur og hnébeyjur til þess að ná upp púlsinum. „Maður gat ekkert hlaupið um í herberginu,“ sagði Elvar sem kveðst ekki hafa verið mikið veikur.

Biðin tók á

„Ég var slappur og með hálsbólgu tvo fyrstu dagana. Maður var aðallega pirraður yfir að þurfa að sitja fullhress lokaður inni á herbergi dag eftir dag. Biðin tók svo sannarlega á. Eins og nærri má geta var ég afar glaður þegar mér var sagt í gærmorgun að ég væri laus úr vistinni,“ sagði Elvar Örn sem tók þá strax við að búa sig undir leikinn við Svartfellinga enda var honum kippt strax inn í liðið.

Frábært að komast inn á gólfið

„Það var frábært að komast inn á gólfið aftur og leggjast á árar með strákunum. Það var hræðilegt að vera lokaður inni á herbergi og geta ekki hjálpað til þótt strákarnir sem komið hafa inn fyrir okkur sem vorum og erum innilokaður hafi staðið sig frábærlega.“

Ekki hægt að treysta á aðra

Elvar Örn tók undir að leikur íslenska landsliðsins gegn Svartfellingum í gær hafi verið frábær. „Við skiluðum okkar en vonuðumst eftir öðrum úrslitum í leik Dana og Frakka en raun varð á. Maður getur aldrei treyst á aðra í þessum efnum heldur fyrst og fremst á sjálfan sig og það er eitthvað sem við ætlum að gera gegn Norðmönnum á morgun. Við ætlum að tryggja okkur fimmta sætið. Á það getum við haft áhrif,“ sagði Elvar og undirstrikaði að leikmenn íslenska og norska landsliðsins þekkist vel eftir að hafa mæst nokkrum sinnum á síðustu árum.

Sæti á HM er gulrót

„Norðmenn eru mjög líkamlega sterkir og hafa á að skipa frábæru liði. Eins og við höfum þróað okkar leik í mótinu þá hef ég fulla trú á að við getum unnið. Fimmta sæti væri frábær niðurstaða. Sæti á HM á næsta ári er gulrótin,“ sagði Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -