- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ég reyndi eins og ég gat

Gísli Þorgeir Kristjánsson Kristjansson reynir að leika á gamla brýnið Gilberto Duarte í leiknum í gærkvöld. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Ég reyndi bara eins og ég gat til þess að valda usla í vörn Portúgals, meira get ég ekki gert,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson sem ógnaði vörn Portúgals með hraða sínum í leiknum í gærkvöld. Hann skoraði tvö mörk og átti stoðsendingar auk þess að vinna eitt vítakast. Þetta nægði þó ekki eitt og sér gegn portúgalska landsliðinu sem lagði Gísla Þorgeir og félaga í íslenska landsliðnu, 25:23, í upphafsleik þjóðanna í F-riðli heimsmeistaramótsins í handknattleik í New Capital Sports Hall í gærkvöld.


„Við fórum illa með aragrúa af dauðafærum. Þar lá munurinn á liðunum að þessu sinni, því miður. Mér fannst leikur okkar samt vera þannig að þegar við vorum einbeittir og ákveðnir þá náðum við að komast framhjá portúgölsku varnarmönnunum. Hinsvegar um leið hik og efi kom upp í hug okkar þá áttu þeir auðvelt með að verjast okkur. Ekki bætti úr skák að þegar okkur tókst að narta i hælana á Portúgölum í síðari hálfleik þá fengum við á okkur ruðning, létum verja frá okkur eða hvað annað sem kom upp,“ sagði Gísli Þorgeir sem hafði enga skýringu á því öryggisleysi sem einkenndi leik íslenska landsliðsins á köflum í gærkvöld.

„Byrjunin var fín hjá okkur en síðan duttum við niður í hik og óákveðni um tíma. En fyrst og fremst þá var það slæm nýting á opnum færum og alltof margir tapaðir boltar sem fóru með þetta hjá okkur þegar dæmið er gert upp. Við lékum okkur í færi, en kláruðum þau ekki.“
Gísli Þorgeir sagði vonbrigði að missa af möguleikanum á að fara með fjögur stig í milliriðil þar sem sennilegt verður að teljast að Portúgal vinni Alsír og Marokkó. „Við getum bara einbeitt okkur að næsta leik, annað er ekki í boði í stöðunni eins og hún er eftir þennan leik,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í íþróttahöllinni, New Capital Sports Hall í Kaíró í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -