- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ég stefni á að hlaupa hratt

Íslenska landsliðið fór í létta gönguferð í morgun í Kastamonu eftir morgunverð. Á ögnunni stillti hópurinn sér upp fyrir myndatöku. Aftari röð f.v.: Andrea Jacobsen, Helena Rut Örvarsdóttir, Hafdís Renötudóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Sunna Jónsdóttir, Berglind Þorsteinsdóttir, Elín Jóna Þorsteinsdóttir, Rut Arnfjörð Jónsdóttir. Fremri röð f.v.: Thea Imani Sturludóttir, Lovísa Thompson, Sandra Erlingsdóttir, Elísa Elíasdótir, Harpa Valey Gylfadóttir, Díana Dögg Magnúsdóttir, Þórey Rósa Stefánsdóttir, Unnur Ómarsdóttir. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Ég er spennt fyrir að leika við Tyrkina og viss um að leikirnir verði skemmtilegir. Eftir því sem ég veit best þá eru leikmenn tyrkneska landsliðsins lengi til baka. Ég stefni á að hlaupa hratt,” sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir landsliðskona í handknattleik og leikreyndasti leikmaður íslenska landsliðsins um þessar mundir. Þórey Rósa leikur sinn 110. landsleik í Kastamonu í dag. Flautað verður til leiks klukkan 16.

Morgunganga í Kastamonu í morgun. Mynd/HSÍ
Síðast mættust landslið Íslands og Tyrklands í kvennaflokki  á handknattleiksvellinum í SC Boris Trajkovski-íþróttahöllinni í Skopje í Norður-Makedóníu 30. nóvember 2018. Viðureignin var liður í forkeppni fjögurra landsliða fyrir heimsmeistaramótið 2019. Íslenska landsliðið vann leikinn örugglega, 36:23, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:14.


„Lykill okkar að sigri verður væntanlega að leika góða vörn og ná hraðaupphlaupum. Þar liggja okkur möguleikar hvað best,” sagði Þórey Rósa sem er ein sjö leikmanna íslenska landsliðsins sem nú er í Kastamonu í dag sem tók þátt í síðasta leik Íslands við Tyrki fyrir rúmum þremur árum. Hún skoraði sjö mörk í 13 marka sigri Íslands, 36:23, í leik sem fram fór í Skopje í Norður Makedóníu í lok nóvember 2018. Viðureignin var liður í umspilsleikjum fyrir HM 2019.

Morgunganga í Kastamonu í morgun. Mynd/HSÍ
Úrslit til þessa í 6. riðli undankeppni EM:
Serbía - Tyrkland 36:27.
Svíþjóð - Ísland 30:17.
Tyrkland - Svíþjóð 23:31.
Ísland - Serbía 23:21.
Serbar og Svíar mætast 3. og 5. mars.
Síðustu leikir riðlakeppninnar fara fram í vikunni eftir páska. Tvö efstu liðin í riðlinum tryggja sér keppnisrétt á EM sem fram fer í desember í þremur löndum; Slóveníu, Svartfjallalandi og Norður Makedóníu.

Hafa tekið framförum frá 2018

„Tyrkneska landsliðið hefur tekið framförum síðan sá leikur fór fram. Talsverður hópur leikmanna hefur leikið með reglubundnum hætti í Meistaradeildinni með Kastamonu-liðinu. Ég reikna með að mikið meira sé spunnið í lið Tyrkja nú og miðað við það sem ég hef séð af upptökum af síðustu leikjum þeirra þá leikur enginn vafi á því,” sagði Þórey Rósa sem komin er á fulla ferð með landsliðinu á nýjan leik eftir hafa dregið saman seglin um stund eftir að hafa eignast annað barn sitt síðla árs 2020.

Morgunganga í Kastamonu í morgun. Mynd/HSÍ


Þórey Rósa segist ekki hafa verið í vafa um að gefa kost á sér í landsliðið aftur. „Svo lengi sem ég er á fullu i handboltanum þá hika ég ekki við að gefa kost á mér í landsliðið. Ég kom inn í liðið aftur fyrir mótið í Tékklandi í nóvember. Það var mjög gaman að taka þátt í því og var þess vegna ekkert í vafa að taka þátt í þessu verkefni sem er framundan við Tyrki,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir, landsliðskona í handknattleik.

Sjö leikmenn af 16 leikmönnum íslenska landsliðsins þá eru í landsliðshópnum sem tekur þátt í leik Tyrklands og Íslands í Kastamonu í dag: Andrea Jacobsen, Díana Dögg Magnúsdóttir, Hafdís Renötudóttir, Helena Rut Örvarsdóttir, Lovísa Thompson, Thea Imani Sturludóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir. Sú síðastnefnda var næst markahæst í íslenska liðinu í leiknum með sjö mörk. 

Fyrri viðureign Tyrkja og Íslendinga í undankeppni Evrópumótsins fer fram í dag og hefst klukkan 16. Fylgst verður með leiknum í textalýsingu á handbolti.is. Síðari viðureign þjóðanna verður á Ásvöllum á sunnudaginn. Ókeypis aðgangur verður á leikinn í boði Olís á með að húsrúm leyfir,

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -