- Auglýsing -
- Auglýsing -

Egyptar eru bjartsýnir fyrir HM

Hisham Nasr, formaður undirbúningsnefndar heimsmeistaramótsins í handknattleik karla í Egyptalandi. Hann er hvergi banginn. Mynd/heimasíða HM2021
- Auglýsing -

Hisham Nasr, formaður undirbúningsnefndar heimsmeistaramótsins í handknattleik karla, sem fram á að fara í Egyptalandi í janúar, er brattur og bjartsýnn á að allt verði í himnalagi hvað aðstöðu til handknattleiks áhrærir þegar flautað verður til leiks 13. janúar. Að minnsta kosti lofar hann að keppnishallirnar verði eins og best verður á kosið. Framkvæmdum við þær er nánast lokið en tvær af fjórum keppnishöllum mótsins er glænýjar.


Eftir Nasr er haft á heimasíðu mótsins að hann vonist til að hægt verði að hleypa að minnsta kosti helmingi leyfilegs hámarks áhorfendafjölda inn í hverja keppnishöll. Þær rúma frá 4.500 áhorfendum og upp í liðlega 16.000. Nasr segir að allar áætlanir séu klárar og unnið sé eftir þrennskonar áætlunum, að heimilt verði að hleypa þriðjungi af hámarksfjölda, helminigi eða í besta falli að engin takmörk verði. Engum sögum fer af því hvort hann vonast eftir öðrum áhorfendum en heimamönnum.


Nasr segir að stangar sóttvarnareglur verði í gildi á mótinu, ekki síst hjá leikmönnum, þjálfurum og meðal þeirra sem fylgja liðunum 32 sem taka þátt í mótinu. Allt kapp verði lagt á að smit komi ekki upp í tengslum við mótið. Leikmenn verða nánast í einangrun frá upphafi til loka mótsins auk þess sem reglulega, sennilega á þriggja daga fresti, fari allir í sýnatöku vegna kórónuveiru. Grímuskylda verður hjá öllum nema leikmönnum og þjálfurum á meðan kappleikir standa yfir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -