- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eitt ár er að baki – dropinn holar steininn

Mynd/EPA
- Auglýsing -
  • Ár er í dag liðið síðan handbolti.is fór í loftið. Vissulega ekki langur tími og svo sem ekki ástæða til þess að fá leyfi til þess að skjóta upp flugeldum eða vera með verulegan bægslagang af þessu tilefni. Engu að síður er um gleðidag að ræða fyrir okkur sem að útgáfunni stöndum. Þeim sömu og lögðu af stað út í óvissuna fyrir ári með bjartsýni að vopni, loforð frá tveimur auglýsendum, ásamt mörgum neium frá fyrirtækjum og nokkrum ósvöruðum fyrirspurnum. Þeim hefur jafnvel ekki enn verið svarað.
  • Efst er okkur þó í huga þakklæti fyrir frábærar viðtökur lesenda frá fyrsta degi og til þeirra sem staðið hafa við bakið á útgáfunni með kaupum á auglýsingum eða reglulegum styrkjum. Án þeirra hefði handbolti.is ekki tórað fyrsta árið.
  • Á ýmsu hefur gengið og vissulega hefur veiran sett strik í reikninginn. Sérstaklega voru fyrstu mánuðirnir öðruvísi en vonir stóðu til. Keppni lá niðri í handknattleik hér á landi frá byrjun október fram undir lok janúar. Efnistök urðu að einhverju leyti önnur og áætlanir um hitt og annað ruku út um bílskúrsdyrnar þar sem eins manns ritstjórn hreiðraði um sig fyrstu mánuðina.
  • Handbolti.is var annar tveggja íslenskra fjölmiðla sem réðist í að fylgja íslenska landsliðinu í handknattleik karla eftir á heimsmeistaramótið í Egyptalandi í algleymi heimsfaraldurs. Erum við stolt að hafa látið slag standa. Kostnaður við förina var mikill fyrir litla útgáfu og óvissa ríkti um tekjur. Þegar upp var staðið var áhættan þess virði. Sannaðist þar e.t.v. að til þess að afla þarf á stundum að eyða. Lesendur kunnu einnig að meta framtakið sem skipti ekki síður máli.
  • Helsta markmið handbolta.is, að auka umfjöllun um handknattleik, hefur náðst. Ekki hefur dagur fallið út á eins manns ritstjórn svo að eftir árið hafa á fimmta þúsund fréttir birst. Þær hafa verið skrifaðar á flandri víða um land, á öllum tímum sólarhringsins, í vegsjoppum, inní bíl, í flugvél í þrjátíu og eitthvað þúsund feta hæð, nyrstu Ströndum, á Akureyri, í Vestmannaeyjum, í Afríku og jafnvel í Asíu.
  • Haldið verður hiklaust inn í annað ár þótt ekki drjúpi smjör af hverju strái. Fyrst og fremst vegna þess að fylgjendur og auglýsendur síðasta árs hafa fært okkur heim sanninn að þörf er fyrir vef eins og handbolti.is er. Áfram verður boðið upp á læsilegan vef sem getur að einhverju leyti komið til móts við þá sem hafa áhuga á handbolta. Við ölum þá von í brjósti að þannig vaxi handbolta.is fiskur um hrygg. Dropinn holar steininn.

    Með handboltakveðju, Ívar Benediktsson, Kristín B. Reynisdóttir – handbolti@handbolti.is.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -