„Ekki alveg búin að fatta ennþá hvað við höfum gert“

Ásdís Guðmundsdóttir, leikmaður KA/Þórs hefur skrifað undir nýjan tvegggja ára samning. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net

„Þetta er yndislegt, frábært og það er hægt að taka saman öll lýsingarorðin. Ég er samt ekki alveg búin að fatta ennþá hvað við höfum gert,“ sagði Ásdís Guðmundsdóttir nýkrýndur Íslandsmeistari í handknattleik með KA/Þór þegar handbolti.is hitti hana að að máli eftir að hún og liðsfélagarnir höfðu unnið Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik. Þetta er í fyrsta sinn sem KA/Þór eða lið frá Akureyri vinnur Íslandsmeistaratitilinn í kvennaflokki.

„Ég er skýjunum. Uppgangurinn hjá okkur hefur verið hreint ótrúlegur. Við höfum haft trú á sjálfum okkur frá fyrsta leik. Einn leikur í einu og nú er svo komið að við höfum unnið til þrennra verðlauna á tímabilinu, erum með alla bikarana sem keppt hefur verið um sem er hreint ótrúlegt,“ sagði Ásdís en auk Íslandsmeistaratitilsins þá vann KA/Þór deildarmeistaratitilinn í Olísdeild kvenna og Meistarakeppnina í upphafi keppnistímabilsins.

Geggjaðir stuðningsmenn

„Stuðningsmenn okkar eiga skilið miklar þakkir fyrir að styðja við bakið á okkur og að svona margir skuli hafa gert sér ferð suður til þess að hvetja okkur til dáða er magnað. Kærar þakkir til allra. Fólkið var geggjað í stúkunni. Þetta er svo sannarlega draumur sem er orðinn að veruleika fyrir alla,“ sagði Ásdís Guðmundsdóttir, Íslandsmeistari í með KA/Þór og landsliðskona í handknattleik.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -