- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ekki fengið nei frá EHF – uppgjör EM í byrjun mars

Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, segir að uppgjör af hálfu Handknattleikssambands Evrópu, EHF, vegna Evrópumóts karla í síðasta mánuði munu ekki liggja fyrir fyrr en upp úr næstu mánaðarmótum. Um leið skýrist hver endanlegur kostnaður HSÍ verður vegna þátttöku landsliðsins og hvort EHF komi til móts við þátttökuríkin vegna stóraukins kostnaðar vegna hóteldvalar, sóttvarna og sýnatöku svo dæmi sé tekið.


Vegna covidsmita þurfti HSÍ að kalla til fleiri leikmenn en upphaflega stóð til auk þess sem leikmenn voru í sérherbergjum eftir smit komu upp í stað þess að tveir væru saman á herbergi eins og lagt var upp með. Eins og nærri má geta þá hækkaði gistikostnaður verulega þegar hver og einn var í sérherbergi auk sem fleiri leikmenn voru á mótinu en upphaflega var reiknað með.


„Ég hef ekki fengið neitun ennþá frá EHF. Meðan svo er þá er hægt að vera bærilega vongóður um að komið verði að einhverju leyti til móts við okkur,“ sagði Róbert.

Nýr samningur hækkar tekjurnar

Burt séð frá endanlegum kostnaði við mótið í janúar sagði Róbert ljóst að greiðslur frá EHF til aðildaþjóða myndi hækka að þessu sinni. Nýr sjónvarpsssamningur sem EHF gerði fyrir tveimur árum og tók gildi frá og með þessu móti skilaði EHF auknum tekjum sem renna að einhverjum hluta áfram til þátttökuríkjanna og eins til félaga þeirra leikmanna sem taka þátt. Hvert félag sem átti leikmann á mótinu fær greitt notkunargjald fyrir hvern leik sem þeir tóku þátt í á EM.


„Ég er ekki að tala um tugi milljóna í þessu sambandi heldur örfáar milljónir sem greiðslur til okkar og félaganna geta hækkað um samanlagt. Það munar um allt. Mest er um vert er að tekjurnar eru að hækka fremur en hitt,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -